Ómögulegt að halda fastgengi við evru

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir það í raun ómögulegt fyrir Seðlabankann að halda fastgengi við evruna og telur hann slíkar hugmyndir að einhverju leyti vanhugsaðar. Gæti það meðal annars leitt til hærri stýrivaxta.

Þetta kom fram í máli Ásgeirs á Reikningsskiladegi Félags löggiltra endurskoðenda sem haldinn var nýverið. Viðskiptablaðið greinir frá.

Ásgeir benti þar á að til að festa íslensku krónuna við evruna yrði algjört samkomulag að ríkja við verkalýðsfélögin varðandi það að fara ekki fram á meiri launahækkanir en gerist í Evrópu.

Heita þyrfti öllum gjaldeyrisforða til að viðhalda fastgengi og yrði íslenska ríkið að miða fjárlög hvers árs út frá því að halda jafnvægi á genginu.

Í kosningastefnu Viðreisnar er kveðið á um að Ísland geri tvíhliða samning við Evrópusambandið varðandi gjaldeyrismál. Áætlar flokkurinn að með þessum hætti megi meðal annars lækka vexti. Telur Ásgeir þær hugmyndir varhugaverðar og vekur hann athygli á að vextir gætu mögulega hækkað til þess að verja gengið.

Gæti komið í veg fyrir hvatavandamál

Telur Ásgeir helstu rökin fyrir upptöku evrunnar vera aðild að Evrópusambandinu, með tilheyrandi skyldum og réttindum, og einnig myndi upptaka evrunnar koma í veg fyrir hvatavandamál við launaákvarðanir.

Yrði íslenska þjóðin þá knúin til að taka ábyrgð á sjálfri sér í ljósi þess að ekki væri lengur hægt að styðja sig við peningastefnu til að koma til móts við óhóflegar launahækkanir.

Ef til þess kæmi að íslenska ríkið myndi taka upp evruna yrði efnahagsstefnan að vera í samræmi við það sem gerist í Evrópu og laun hérlendis að taka mið af þýsku launastigi. Gætu þá of há laun hérlendis leitt til slakari samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja vegna aukins kostnaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK