Drífa Snædal, forseti ASÍ, telur forsendur kjarasamninga ekki hafa staðist og að íslensk stjórnvöld hafi ekki staðið við yfirlýsingar sínar í tengslum við þá.
Þetta kemur fram í tilkynningu ASÍ.
„Sú undarlega staða gæti komið upp að samningar um ríkisstjórnarmyndun og kjarasamningsviðræður féllu saman að þessu sinni en forsendunefnd ASÍ og SA hafa komist að þeirri niðurstöðu að forsendur kjarasamninga hafi ekki staðist. Þrjár forsendur voru til grundvallar lífskjarasamningunum, lækkun vaxta, aukinn kaupmáttur og að stjórnvöld myndu standa við sínar yfirlýsingar,“ kemur fram í tilkynningu ASÍ.
Drífa segir það enn vilja verkalýðshreyfingunnar að samningarnir standi þrátt fyrir forsendubrest þar sem búið sé að semja um kauphækkanir á næsta ári en samningarnir renna út í nóvember 2022. Eru óvissa og átök ekki eitthvað sem vinnumarkaðurinn þarf á að halda núna þegar hann er enn að koma sér á strik.
„Í kjarasamningunum sem voru undirritaðir vorið 2019 skipti aðkoma ríkisstjórnarinnar sköpum. Á spýtunni héngu skattabreytingar, barnabætur, fæðingarorlofið, húsnæðismál, umgjörð vinnumarkaðarins, vextir og lánamál auk lífeyrismála svo eitthvað sé nefnt,” segir einnig í tilkynningunni.
Drífa telur stór verkefni nú bíða nýrrar ríkisstjórnar til bættra lífskjara. Megi finna leiðbeiningar í skýrslum ASÍ og Vörðu, rannsóknarmiðstöð vinnumarkaðarins, um hvernig fjármagna megi aukna velferð. Segir hún ASÍ reiðubúið að styðja við þá ríkisstjórn sem setur atvinnuöryggi, afkomuöryggi og húsnæðisöryggi í forgang enda sé það lykillinn að friði á vinnumarkaði.
„Við erum á krossgötum eftir efnahagslægð og nú kemur í ljós hverjir vilja fara leið sölu ríkiseigna, útvistunar og skertrar þjónustu til að greiða upp skuldir og hverjir vilja fara þá leið að vaxa út úr kreppunni vitandi það að lífskjör almennings knýja áfram hjól atvinnulífsins. Án kaupmáttar hins almenna borgara eru fáir til að halda uppi atvinnurekstri, sérstaklega lítilla og meðalstórra fyrirtækja.”
Segir Drífa þróunina á húsnæðismarkaðnum meginorsök verðbólgu og óstöðugleika í hagkerfinu þar sem peningastefna hefur hækkað bæði húsnæðis- og leiguverð.
„Engu að síður heyrist kunnuglegur söngur um að kosningaloforð og nauðsynleg umbótamál muni leiða til vaxtahækkana. Það hlýtur að vera hagur allra, ekki bara launafólks heldur líka atvinnurekenda, að fólk geti lifað með reisn, haft aðgang að kerfi sem bætir heilsuna og búið í góðu húsnæði á viðráðanlegum kjörum.”