Til að takmarka kerfisáhættu til lengri tíma vegna ört hækkandi fasteignaverðs og aukinnar skuldsetningar heimila hefur fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands sett reglur um hámark greiðslubyrðar. Greiðslubyrðarhlutfall fasteignalána skal almennt takmarkast við 35% en 40% fyrir fyrstu kaupendur.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá nefndinni.
„Efnahagsbatinn á síðustu mánuðum samhliða lausu taumhaldi peninga- og þjóðhagsvarúðarstefnu hefur stutt við heimili og fyrirtæki. Á móti hefur eignaverð, einkum hlutabréfa- og fasteignaverð, hækkað verulega,“ segir í yfirlýsingunni.
Fram kemur að staða stóru bankanna þriggja sé sterk og eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra vel yfir lögbundnum lágmörkum. Bankarnir hafi greiðan aðgang að lausu fé bæði í krónum og erlendum gjaldmiðlum. Viðnámsþróttur þeirra sé því mikill.
„Miða skal við ákveðið hámark á lánstíma fasteignalána við útreikning hlutfallsins. Lánveitendum er veitt undanþága frá reglunum fyrir allt að 5% heildarfjárhæðar nýrra fasteignalána sem veitt er í hverjum ársfjórðungi,“ segir yfirlýsingunni.
Einnig hefur verið ákveðið í ljósi aukinnar uppsöfnunar sveiflutengdrar kerfisáhættu að hækka sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki úr 0% í 2%.
Fram kemur að dregið hafi úr óvissu um stöðu fjármálafyrirtækja og gæði útlána aukist. Búa þau því yfir nægum þrótti til lánveitinga til heimila og fyrirtækja.
„Nefndin telur ekki lengur þörf á því svigrúmi sem hún veitti fjármálafyrirtækjum eftir að farsóttin barst til landsins með lækkun sveiflujöfnunaraukans. Er það mat nefndarinnar að hratt hækkandi eignaverð samhliða aukinni skuldsetningu heimila, hafi nú þegar fært sveiflutengda kerfisáhættu að minnsta kosti á sama stig og hún var fyrir útbreiðslu farsóttarinnar.”