Flugfélagið Atlanta mun á næstu mánuðum taka sjö nýjar flutningaþotur í notkun en félagið er nú með níu slíkar þotur í rekstri.
Baldvin Hermannsson, forstjóri Atlanta, segir eftirspurn eftir fraktflugi hafa stóraukist samhliða samdrætti í farþegaflugi í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Ekki síst flugi langdrægra breiðþotna milli heimsálfa. Því vanti flutningsgetu í kerfið.
„Þetta hefur verið rússíbanareið síðan faraldurinn skall á. Þá vorum við að fljúga 15 vélum og vorum með miklar áætlanir um áframhaldandi nýliðun og stækkun á flotanum. Það fór allt í vaskinn í faraldrinum.“
„Undanfarið höfum við þó byggt upp reksturinn og erum nú eingöngu með fraktvélar, alls níu 747 Boeing-fraktvélar. Eftirspurnin hefur stöðugt aukist síðustu tólf mánuði. Áður fyrr komu 65-70% af okkar tekjum úr farþegaflugi,“ segir Baldvin.
Atlanta mun nýta tvær farþegaþotur í fraktflug en þær höfðu verið á jörðu niðri síðan faraldurinn hófst. Fór önnur þeirra í loftið í fyrradag.
Þá skrifaði Atlanta í síðustu viku undir langtímasamning um leigu á tveimur Boeing 747-fraktvélum og er áformað að taka þær í notkun í janúar og febrúar. Með því verður félagið með þrettán fraktvélar.
„Þessu til viðbótar erum við að ljúka samningum um rekstur á þremur Airbus 340-þotum,“ segir Baldvin. Síðastnefnda leigan verði hugsanlega tímabundin meðan umframeftirspurn ríkir í fraktflugi. Sú fyrsta fer í loftið í október en Baldvin vonast til þess að flugfélagið verði með alls 16 vélar í notkun í febrúar.
Hann segir aðspurður að það fari eftir nýtingunni hversu margir verði ráðnir í áhafnir á þessum sjö nýju vélum. Um hundrað íslenskir flugmenn starfi nú hjá félaginu og hafi nóg að gera. Nýju þoturnar muni fara heimhorna á milli.