Vertíð farþega- og skemmtiferðaskipa er lokið á þessu sumri. Síðasta skipið, Quest, lét úr höfn í Reykjavík á mánudagskvöldið, áleiðis til Bergen í Noregi.
Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur sem kunnugt er haft gríðarleg áhrif á siglingar farþegaskipa um heimshöfin. Hvert risaskipið á fætur öðru kom að Skarfabakka á sumrin og hafnarsvæðið iðaði af lífi. En þetta breyttist snarlega og sumarið 2020 kom ekkert stórt skemmtiferðaskip til Reykjavíkur. Nokkur skip, sem kalla má meðalstór, komu í sumar en fá tækifæri gáfust til að mynda tvö slík skip samtímis við Skarfabakka. Meðfylgjandi mynd var tekin fyrr í mánuðinum þegar tvö skip voru samtímis í höfn, Marella Explorer II, 72.458 brúttótonn, og Viking Jupiter, 47.842 brúttótonn.
Sumarið 2019 var sett nýtt met í komum farþega/skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur. Alls voru skipakomur 190 og fjöldi farþega 188.630. Sumarið 2020 varð algjört hrun þegar skipakomur voru sjö og farþegar aðeins 1.346. Þetta var hvorki meira né minna en 99% samdráttur.
Heldur hefur ræst úr í sumar og 11. september sl. voru skipakomur orðnar 58 og farþegafjöldinn 32.067.
Fyrir sumarið 2022 er horfurnar góðar. Alls er bókuð 181 skipakoma með 210.432 farþega. Þessar bókanir miðast við væntingar skipafélaganna og margt getur breyst á næstu mánuðum eins og dæmin sanna.