Skiptum er lokið á þrotabúi Solstice production ehf., félaginu sem sá um tónlistarhátíðina Secret solstice sem haldin var í nokkur ár í Laugardalnum, auk tónleika Guns N' Roses á Laugardalsvelli. Engar eignir fundust í búinu.
Félagið var úrskurðað gjaldþrota í maí í fyrra, en í apríl sama ár hafði umboðsfyrirtæki bandarísku hljómsveitarinnar Slayer haft sigur í dómsmáli gegn Solstice production og forsvarsmanni félagsins í héraðsdómi. Var þeim gert að greiða umboðsfyrirtækinu 20 milljónir í útistandandi þóknun fyrir að spila á hátíðinni árið 2018.
Árið 2019 var hins vegar nýtt félag, Show ehf., búið að taka við rekstri hátíðarinnar, en í fyrra fór hátíðin ekki fram vegna faraldursins.
Í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu er boðað til skiptafundar vegna gjaldþrotsins og tekið fram að engar eignir hafi fundist. Þá segir skiptastjóri að vænta megi þess að skiptum búsins verði lokið á fundinum.