Smásölufyrirtækið S4S hefur, í samvinnu við hugbúnaðarfyrirtækið Leikbreyti, þróað nýja gerð rafrænna gjafa- og inneignarkorta sem vakið hafa verðskuldaða athygli. Freyja Leópóldsdóttir er sölu- og markaðsstjóri S4S og segir hún nýju lausnina einfalda, hentuga og það sem koma skal í utanumhaldi inneignarkorta hjá verslunum.
Undir hatti S4S eru skóverslanirnar Ecco, Kaupfélagið, Skechers, Steinar Waage og Toppskórinn, ásamt Air sem er sérvöruverslun með Nike-vörur. Þá starfrækir fyrirtækið einnig verslanir Ellingsen og netverslanirnar Skór.is, Ellingsen.is, Air.is, Rafhjólasetur.is og BRP.is.
„Okkur langaði að búa til gjafakort sem myndi virka bæði í verslunum okkar og í netverslunum, og fólk gæti geymt í snjallsímanum sínum. Rétt eins og margir nota símann sinn í dag sem greiðslutæki sem geymir kortaupplýsingarnar og ökuskírteini þeirra geta gjafa- og inneignarkort líka átt heima í símanum og eru þá alltaf við höndina enda fer enginn út úr húsi lengur án snjallsímans.“
Fyrstu kortin af þessari gerð voru gefin út í desember síðastliðnum. Notendur símtækja Apple geyma kortin á sama stað og þeir geyma greiðslukort og ökuskírteini, en notendur Android-síma þurfa að sækja sérstakt forrit. „Þetta er sama forritið og fólk notar til að geyma flugfarseðla rafrænt svo þeir sem eru mikið á ferðinni ættu að vera forritinu vel kunnugir,“ útskýrir Freyja og bætir við að það taki aðeins nokkrar sekúndur að hlaða gjafakorti inn á símann.
Í verslunum S4S sýnir viðskiptavinur gjafakortið í símanum og starfsmaður skannar kóðann á skjánum. Er hugbúnaðurinn sem Leikbreytir smíðaði beintengdur við tölvukerfi S4S og uppfærir jafnóðum upplýsingar um eftirstöðvarnar á kortinu og birtir stöðuna í snjallsímanum.
Nánari umfjöllun er að finna í Viðskiptamogganum í dag.