Tæplega tvö þúsund manns hafa sótt um starf sem flugliðar hjá flugfélaginu Play. Fyrirtækið auglýsti hundrað störf og lætur því nærri að 20 umsækjendur séu um hvert starf.
„Viðbrögðin hafa verið frábær. Við höfum meðal annars fengið margar umsóknir frá WOW-fólki,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, og vísar til fv. starfsmanna flugfélagsins WOW air.
„Meirihluti umsækjenda var hjá WOW air en það eru líka margir nýliðar að sækja um starf og sömuleiðis fólk sem er af erlendu bergi brotið. Flugfreyjustörf eru alltaf vinsæl,“ segir Birgir.
Play hyggst ráða áhafnir á þrjár nýjar þotur sem hefja sig til flugs með vorinu, alls um hundrað manns. Næst verða ráðnir um 50 flugmenn og hefur Play fengið margar fyrirspurnir frá flugmönnum.
„Þjálfun nýrra flugáhafna hefst á nýju ári en starfsfólkið byrjar að fljúga með vorinu. Þetta eru vinsæl störf og það er gaman að taka þátt í þessu,“ segir Birgir. Um 140 starfa nú hjá Play.
Athugasemd 8. október
Eftir að fréttin birtist gerði lesandi mbl.is athugasemdir við hugtakanotkun. Sagði flugliða hafa réttindi í stjórnklefa flugvélar. Þjónustuliðar væru hins vegar flugfreyjur og flugþjónar. Hið rétta væri að Play væri fyrst og fremst að auglýsa eftir fólki í síðarnefndu störfin.