Sætanýting Play í september var 52,1% og kemst þar með í fyrsta skiptið yfir helmings sætanýtingu. Hefur hlutfallið farið vaxandi síðustu fjóra mánuði, eða frá því félagið hóf sig til flugs. Í ágúst var hlutfallið 46,3% og í júlí 41,7%. Þetta kemur fram í farþegatölum frá félaginu fyrir síðasta mánuð.
Samtals flutti félagið 15.223 farþega í mánuðinum, en það er fækkun frá í síðasta mánuði þegar félagið flutti 17.296 farþega. Í júlí var fjöldinn 9.899.
Samhliða birtingu á farþegatölum kynnir félagið nýjan áfangastað, en Amsterdam hefur verið bætt við vetraráætlun félagsins. Fyrsta flugið til Amsterdam verður 3. desember með flugi á mánudögum og föstudögum, en síðar munu fimmtudagar og sunnudagar bætast við.
Boðar félagið jafnframt að fleiri áfangastaðir í Evrópu verði kynntir á næstu vikum.
Í tilkynningunni segir að félagið merki augljósan ferðavilja í takt við færri Covid-19-tilfelli á Íslandi og tilslakanir á sóttvarnareglum.