Drög að uppgjöri Íslandsbanka fyrir þriðja ársfjórðung liggja nú fyrir. Drögin benda til þess að hagnaður og arðsemi eigin fjár bankans sé töluvert umfram fjárhagsleg markmið hans og spár greiningaraðila.
Samkvæmt drögunum stefnir í að hagnaður bankans á þriðja ársfjórðungi verði 7,6 milljarðar króna og að arðsemi eigin fjár bankans á ársgrundvelli verði 15,7%, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar. Greiningaraðilar höfðu spáð 4,6 milljaðar hagnaði.
Til samanburðar nam hagnaður bankans 3,4 milljörðum á þriðja ársfjórðungi 2020 og var arðsemi eiginfjár 7,4%.
Rekstrartekjur fjórðungsins nema um 13,3 milljörðum sem er 20,6% aukning frá þriðja ársfjórðungi 2020. Þar af nema hreinar vaxtatekjur um 8,8 milljörðum, hreinar þóknanatekjur um 3,4 milljörðum og hreinar fjármunatekjur um 0,9 milljörðum.
Hreinar fjármunatekjur jukust aðallega vegna jákvæðrar virðisbreytingar á fjárfestingu í óskráðum hlutdeildarfélögum.
Rekstrarkostnaður fjórðungsins nemur um 5,7 milljörðum samanborið við 5,6 milljarða á þriðja ársfjórðungi 2020.
Frávikin milli ára og frá markmiðum bankans skýrast að stærstum hluta af því að virðisrýrnun er jákvæð og er um 1,8 milljarðar færðir til tekna vegna þess í fjórðungnum, að mestu leyti vegna bjartari horfa í ferðaþjónustu og vegna minni óvissu í mati á vanefndarlíkum einstaklinga í kjölfar uppfærðs áhættumatslíkans.
Til samanburðar færði bankinn um 1,1 milljarð til gjalda í virðisrýrnun á þriðja ársfjórðungi 2020 sem tengdist að mestu leyti þeirri óvissu sem uppi var vegna faraldursins á þeim tíma.
Rétt er þó að minna á að uppgjörið og kynningarefni fyrir þriðja ársfjórðung er enn í vinnslu og því geta áðurnefndar tölur tekið breytingum fram að birtingardegi, þann 28. október.