Útgáfa verðbréfafyrirtækisins Fossa markaða á B-hlutabréfum til valinna starfsmanna fyrirtækisins og annarra sem tengdust starfseminni, og arðgreiðslur sem hlutust af bréfunum, voru í reynd kaupaukagreiðslur til starfsmanna. Þær fóru langt umfram þau mörk sem heimilað er samkvæmt lögum.
Þetta er niðurstaða héraðsdóms í máli Fossa markaða gegn Seðlabankanum og íslenska ríkinu, en fyrirtækið vildi ógilda ákvörðun Seðlabankans sem hafði áður sektað fyrirtækið um 10,5 milljónir vegna athæfisins.
Í gildi eru lög þar sem lagt er bann við að kaupauki nemi hærri fjárhæð en 25% af árslaunum viðkomandi starfsmanns án kaupauka hjá fjármálafyrirtækjum. Í ákvörðun Seðlabankans og dómi héraðsdóms er rakið hvernig stjórn Fossa hafi ákveðið að búa til svokallaðan B-hlutabréfaflokk til viðbótar við hefðbundinn A-hlutabréfaflokk. Voru það aðeins starfsmenn fyrirtækisins, auk stjórnarmanns og ráðgjafa, sem fengu að kaupa B-hlutabréf. Var það ákvörðun stjórnar hver og hversu lengi eignarhald viðkomandi væri á bréfunum og tengdist það jafnan komu starfsmanna til fyrirtækisins eða starfslokum.
Var hluthöfum í B-flokki óheimilt að framselja hluti sína í félaginu án samþykkis stjórnar og gátu sætt innköllun eftir vilja stjórnar. Hins vegar voru arðgreiðslur til B-hluthafa langt umfram það sem hluthafar í A-flokki gátu átt von á.
Í dóminum er bent á að hluthafar í B-flokki hafi á árunum 2016-2019 fengið 345 milljónir í arðgreiðslur, en á sama tímabili nam heildarfjárhæð B-hluta félagsins frá 21,25 milljónum upp í 30,35 milljónir. Launagreiðslur viðkomandi starfsmanna voru á sama tímabili 303,3 milljónir. Hafi B-hlutabréfunum á umræddum árum fylgt réttur til arðs upp á 44,94 – 46,84% af hagnaði síðasta rekstrarárs, en hlutfall B-hlutabréfaflokksins var á þessum árum á bilinu 7,5 – 23,6% af heildarhlutafé í Fossum.
Kemst dómurinn að þeirri niðurstöðu að réttarstaða hluthafa í B-flokki hafi verið þannig að þeir fóru ekki með atkvæðarétt og í samræmi við það ekki haft stjórnunarleg áhrif sem aðrir hluthafar hafi á starfsemi hlutafélaga. Arðgreiðslurnar hafi þá verið „ekki í nokkru samræmi við það hlutafjárframlag sem þeir höfðu lagt fram samanborið við hlutafjárframlag hluthafa í A-flokki.“
Fellst dómurinn á rök Seðlabankans og segir að „engu skipti í þessu sambandi þótt téður kaupauki hafi verið klæddur í búning arðgreiðslna af hlutum“. Um kaupauka sé að ræða og að hann hafi farið langt umfram fyrrnefnd 25% mörk. Þannig námu kaupaukagreiðslur á árinu 2016 frá 52% upp í 76% og árið 2017 var hlutfallið 78% upp í 89%. Árið 2018 var hlutfallið 47% upp í 191% og árið 2019 var það 31% upp í 226%. „Allar greiðslurnar fóru þar með umfram leyfileg mörk,“ segir í dóminum.
Dómurinn fellst einnig á niðurstöðu Seðlabankans um að Fossar hafi frestað 40% kaupaukagreiðslna til þriggja ára eins og skylt er samkvæmt lögum. Staðfestir héraðsdómur þar með ákvörðun Seðlabankans í einu og öllu, meðal annars stjórnvaldssekt upp á 10,5 milljónir.