Seðlabanki Kína hefur loksins rofið þögn sína um alvarlega skuldastöðu kínverska fasteignaþróunarfélagsins Evergrande, en það er vafið 300 milljarða dala skuldum og á yfir höfði sér gjaldþrot. Segir seðlabankinn að hægt sé að hafa stjórn á mögulegum áhrifum út á fjármálamarkaðinn vegna þessa.
Zou Lan seðlabankastjóri sagði í dag að yfirvöld væru að vinna að málum fyrirtækisins og bætti við að Evergrande hefði undanfarin ár verið illa rekið og hefði því ekki getað brugðist við breytingum á markaði. Sagði hann að félagið hefði einungis horft til stækkunar og það hefði skilað sér í fjárhagserfiðleikunum.