Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóri Ikea á Íslandi, segir í samtali við mbl.is að vöruskortur muni hafa áhrif á Ikea hér á landi út næsta rekstrarár líkt og annars staðar í heiminum. Hann segir þó að skorturinn muni ekki hafa áhrif á vöruverð.
Stefán segir að verslunin hér hafi farið að finna fyrir vöruskortinum þegar leið á heimsfaraldurinn og flutningsleiðir lokuðust.
„Skipaflutningar hafa verið lélegir og vöntun á gámum og annað. Við höfum fundið fyrir því og lagt mikla vinnu í að fá sem mest af vöru og gera okkar besta. Við vitum hins vegar ekki hvað það gengur lengi þar sem við erum lítill markaður,“ segir Stefán og bætir við að móðurfélag Ikea sé meðvitað um að dreifa vörum jafnt á verslanir.
„Þeir hafa verið að reyna koma því þannig til leiðar að allir fái eitthvað í staðin fyrir að einhver einn markaður fái allt.“
Móðurfélagið hefur gefið út að vöruskorturinn muni halda áfram næsta rekstrarárið en nýtt rekstrarár hófst 1. september hjá fyrirtækinu.
Er einhver sérstakur vöruflokkur sem finnur fyrir meiri skort en annar?
„Við höfum verið heppin með eldhúsin, baðherbergin og fataskápanna sem eru stærstu flokkarnir. Það sem við finnum mest fyrir núna er skortur í almennri smávöru,“ segir Stefán og bætir við að salan hafi einna mest verið í stærri flokkunum í heimsfaraldrinum.
Stefán segir það ekki hafa komið til tals hjá Ikea á Íslandi að hækka vöruverð. „Við munum halda verði eins lengi og við getum,“ segir hann og nefnir að Ikea hafi haldið verði á milli rekstrarára þetta árið.
„Maður veit hins vegar aldrei hvað gerist þegar svona er ástandið. Þetta hefur verið mikið púsl síðustu 20 mánuðina. Það hefur gengið vonum framar hjá okkur en við sjáum fram á áframhaldandi erfiðleika.“