Síminn hefur undirritað samkomulag um einkaviðræður við franskt sjóðastýringarfyrirtæki um helstu skilmála varðandi mögulega sölu á Mílu. Í samkomulaginu felst að áreiðanleikakönnun sé nú þegar lokið, samningagerð langt komin og að fyrirhuguð viðskipti séu að fullu fjármögnuð.
Greint er frá samkomulaginu í tilkynningu til Kauphallarinnar. Þar segir jafnframt að unnið sé að því að ljúka samningaviðræðum og skrifa undir skuldbindandi samning eins fljótt og auðið er. Ef af verður mun franska félagið bjóða íslenskum lífeyrissjóðum aðkomu að kaupunum.
Sjóðastýringarfyrirtækið heitir Ardian France SA og er alþjóðlegt sjóðastýringarfyrirtæki með höfuðstöðvar í París, og skrifstofur víðs vegar um heim, að því er fram kemur í tilkynningunni.. Ardian er langtímafjárfestir með um 114 milljarða bandaríkjadala í stýringu og hjá fyrirtækinu starfa yfir 800 manns. Meðal fjárfesta í Ardian eru ríkisstofnanir, lífeyrissjóðir, tryggingafélög og stofnanafjárfestar.
Míla heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði og felst kjarnastarfsemi Mílu í að byggja upp og reka innviði fjarskipta á landsvísu.
Fram kemur í tilkynningunni að stundum þegar um sé að ræða viðskipti af ákveðinni stærðargráðu sem geti mögulega valda tímabundnum flæðisfrávikum eða óvenjulegum skammtímahreyfingum á krónunni eigi Seðlabankinn í sérstökum tvíhliða viðskiptum framhjá markaðinum við viðskiptabankana þrjá. „Ef af kaupunum verður munu Síminn og Ardian vinna með Seðlabanka Íslands að framgangi viðskiptanna þegar þar að kemur þannig að sem minnst áhrif verði á gjaldeyrismarkað,“ segir í tilkynningunni.
Þá er tekið fram að ef endanlegir samningar náist muni Síminn og Ardian einnig vinna með hinu opinbera að upplýsingagjöf og öryggismálum varðandi hagsmuni landsmanna. Þegar séu undirbúningsviðræður að slíku fyrirkomulagi hafnar, en þar er um að ræða að tryggja að rekstur innviða félagsins samrýmist þjóðaröryggishagsmunum.
Hlutabréf Símans hafa hækkað um 7,7% í viðskiptum það sem af er degi.