Franski fjárfestingarsjóðurinn Vauban Infrastructure Partners hefur keypt meirihlutaeign í íslenska félaginu Borealis Data Center sem áður hét Etix Everywhere Borealis.
Björn Brynjúlfsson, forstjóri og einn af stofnendum Borealis Data Center, heldur hlut í félaginu og engar breytingar verða gerðar á starfseminni, að því er kemur fram í tilkynningu.
Borealis Data Center rekur tvö gagnaver hér á landi, eða á Blönduósi og á Fitjum í Reykjanesbæ og leggur áherslu á rekstur sjálfbærra gagnavera.
„Hagkvæmt loftslag, aðgengi að grænni orku og öruggum innviðum gerir Borealis Data Center kleift að veita sjálfbæra gagnaversþjónustu. Viðskiptavinir gagnaversins eru fyrst og fremst erlend fyrirtæki sem horfa í auknum mæli til þess að lágmarka kolefnisfótspor af starfsemi sinni. Slík markmið falla vel að aðstæðum hér á landi þar sem samkeppnisforskotið byggir á öruggri staðsetningu, grænni orku, afhendingaröryggi og kalda loftinu sem hentar vel til kælingar á tölvubúnaði,” segir í tilkynningunni.
Fram kemur að stækkun sé hafin á gagnaverinu á Blönduósi. Vinna stendur yfir við að reisa nýja byggingu sem mun auka við afkastagetu félagsins. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir frekari stækkun gagnaversins á Blönduósi á komandi árum.
Vauban Infrastructure Partners er langtíma fjárfestingasjóður með áherslu á fjárfestingar í innviðum með skýra sýn í sjálfbærni. Félagið er með aðsetur í París og hjá þeim starfa um 50 sérfræðingar með áratuga reynslu í innviðafjárfestingum. Kaupin á Borealis gagnaverinu styrkir stöðu Vauban í stafrænum innviðum sem og á Norðurlöndunum þar sem félagið hefur nú þegar fjárfest í félögum í Noregi og Finnlandi.
„Kaupin auka enn frekar viðveru Vauban á Norðurlöndunum og veitir okkur tækifæri á að bæta við sérþekkingu okkar á stafrænum innviðum. Við höfum mikla trú á ómissandi hlutverki gagnavera og nauðsyn þess að koma fram með sjálfbærar lausnir á meðan gagnanotkun heldur áfram að vaxa í heiminum,“ segir Sam Zhang, fjárfestingarstjóri og einn af eigendum hjá Vauban Infrastructure Partners og nýr stjórnarformaður Borealis Data Center, í tilkynningunni.
Björn Brynjólfsson bætir við:
„Við hjá Borealis erum stolt af þessum nýja kafla hjá félaginu enda er langtíma fjárfestingarstefna Vauban og áhersla á sjálfbærni í takt við okkar eigin sýn. Kaup Vauban á félaginu gefa okkur byr undir báða vængi og sýnir sterkt hversu mikill árangur félagsins hefur verið á síðustu árum,“ segir hann.