Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir hefur verið ráðin í starf sölu- og markaðsstjóra VÍS og mun hefja störf um miðjan nóvember, að því er greint frá í tilkynningu frá VÍS.
Ingibjörg hefur viðamikla þekkingu á sölu, þjónustustjórnun og þjónustuupplifun en síðastliðin 17 ár hefur hún starfað sem forstöðumaður þjónustu og notendaupplifana hjá Icelandair. Þar hefur hún tekið þátt í að leiða flugfélagið í gegnum víðtækar breytingar, fyrst í starfi sínu sem forstöðumaður Icelandair Saga Club, stærsta tryggðarkerfis á Íslandi, og nú síðast sem forstöðumaður þjónustu og notendaupplifana. Einnig hefur hún starfað sem svæðisstjóri Icelandair þar sem hún bar ábyrgð á sölu og markaðsstarfi hér á landi.
Hún er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BS gráðu í viðskiptafræði frá sama skóla. Þá kennir hún námskeiðið „Leiðtogi í þjónustu og upplifunum“ hjá Akademias þar sem kastljósinu er beint að þjónustustjórnun og þjónustuupplifunum.