Magnús Ólafur Garðarsson, stofnandi og fyrrverandi forstjóri United Silicon- kísilverksmiðjunnar í Helguvík, hefur verið úrskurðaður gjaldþrota í Danmörku. Þetta kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, en það er danskur lögmaður sem tilkynnir um gjaldþrotið.
Fram kemur í auglýsingunni að dómsúrskurðurinn um gjaldþrot Magnúsar nái til eigna hans í öðrum norrænum ríkjum, þar með talið á Íslandi. Í auglýsingunni kemur fram að Magnús sé með skráð lögheimili í Kaupmannahöfn. Fyrr í sumar var skorað á Magnús að mæta fyrir Héraðsdóm Reykjaness vegna kröfumáls í tengslum við gjaldþrotaskipti Sameinaðs sílikons hf., sem rak fyrrnefnda kísilverksmiðju. Var það vegna kröfu á móðurfélagið Kísil Íslands og var Magnús skráður forsvarsmaður þess. Í þeirri áskorun kom fram að Magnús væri með óþekktan dvalarstað á Spáni.
Magnús var sem fyrr segir stofnandi og forsvarsmaður kísilverksmiðjunnar í Helguvík. Hófst starfsemi hennar árið 2016, en fljótlega komu fram ýmiskonar vandamál í rekstrinum. Hætti Magnús afskiptum af félaginu í mars 2017 og tóku kröfuhafar félagið yfir. Starfsemin var svo stöðvuð í september 2017, áður en rekstrarfélagið var svo sett í þrot.
Héraðssaksóknari hefur haft mál Magnúsar til rannsóknar í um fjögur ár, en bæði stjórn United Silicon og Arion banki, sem var aðalviðskiptabanki verksmiðjunnar, sendu kæru til héraðssaksóknara eftir að félagið var tekið yfir. Var þar uppi grunur um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals.
Magnúsi hefur í nokkrum málum verið stefnt í einkamáli hér á landi, meðal annars í fyrrnefndu kröfumáli Sameinaðs sílikons hf. Þar er Magnús krafinn um sem nemur 530 milljónum króna, en til viðbótar er deilt um frekari upphæðir, samtals meira en einn milljarð. Þá hefur Arion banki stefnt honum í allavega tveimur málum.