Treble Technologies, íslenskt sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í hugbúnaði á sviði hljóðhermunar, lauk í gær 232 milljón króna fjármögnun. Helstu fjárfestar eru Börkur Arnviðarsson stofnandi ChemoMetec, félagið Omega ehf., Sigþór Sigmarsson og Trausti Kristjánsson.
Fyrsta vara félagsins er væntanleg á næsta ári en það er hugbúnaður fyrir byggingargeirann sem á að gera hönnuðum og eigendum bygginga færi á að móta hljóðheim og hljóðvist hönnunar sinnar. Þannig verður þeim gert kleift að taka upplýstar ákvarðanir um efnisval, form og fleira á grundvelli hermunar og stafrænnar upplifunar.
Treble technologies hefur starfað frá síðari hluta ársins 2020 en ætlunin er að koma þessari fyrstu vöru fyrirtækisins á markað á seinni hluta ársins 2022.