„Það koma oft svona bylgjur þegar sveitarstjórnarkosningar nálgast. Þá vilja menn gjarnan klára hluti og sýna hvað gert hefur verið í bænum á kjörtímabilinu. Að sama skapi verður oft rólegra árið eftir kosningar,“ segir Finnur í samtali við ViðskiptaMoggann. Kosið verður til sveitarstjórna næsta vor.
Spurður hvort faraldurinn hafi einnig haft jákvæð áhrif á verkefnastöðuna, hvort fólk noti fé í breytingar í kringum heimili sín sem annars hefði farið í ferðalög, sem lögðust af í faraldrinum, telur Finnur ekki endilega að svo sé. „Ég vil frekar tengja aukin verkefni við framtakið Allir vinna, þar sem fólk fær endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnu iðnaðarmanna. Það hefur smitast yfir til okkar. Fólk hefur í auknum mæli verið að láta laga innkeyrslur og fleira sem það hefði kannski ekki ráðist í annars.“
Landslag er ein stærsta landslagsarkitektastofa landsins með átján manns í vinnu, þar af þrjá á Akureyri. „Við teljum okkur líka góð í skipulagsmálum, sem standa fyrir þriðjungi af okkar tekjum.“
Spurður um helstu verkefni nefnir Finnur vinnu stofunnar að hinni svokölluðu Perlufesti, útivistar- og göngustíg í einni hæðarlínu allt í kringum Perluna. „Þú færð útsýni yfir alla borgina. Fyrsti áfangi verður vonandi byggður næsta vor.“
Gerður Jónsdóttir framkvæmdastjóri Arkitektafélags Íslands segir að áberandi mikið sé um arkitektasamkeppnir fyrir sveitarfélögin þetta haustið. Hún segir að sveitarstjórnarkosningar spili þar inn í. „Það er mikill áhugi núna hjá sveitarfélögum að halda samkeppnir. Þetta eru alls konar ólík verkefni. Fá þeirra hafa verið birt enn þá, en fleiri fara að detta inn á næstu dögum og vikum.“
Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.