853 fyrirtæki teljast framúrskarandi

Viðurkenningarathöfn fer fram í Hörpu í dag þar sem fyrirtækin …
Viðurkenningarathöfn fer fram í Hörpu í dag þar sem fyrirtækin 853 verða heiðruð. Ljósmynd/Creditinfo

853 fyrirtæki uppfylla ströng skilyrði Creditinfo og komast á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2021. Ferðaþjónustufyrirtækjum fækkar mikið á listanum.

Creditinfo kynnir í dag lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2021 og eru þau 853 á listanum í ár. Eru þau 11 fleiri en á listanum í fyrra og kemur það nokkuð á óvart miðað við það bylmingshögg sem íslenskt atvinnulíf varð fyrir í tengslum við alheimsfaraldur kórónuveirunnar.

Fyrirtækjum á listanum fjölgar lítillega í ár.
Fyrirtækjum á listanum fjölgar lítillega í ár. Ljósmynd/Creditinfo

Glæsilegt sérrit helgað listanum

Með Morgunblaðinu á morgun fylgir glæsilegt sérrit sem helgað er fyrirtækjunum sem fylla listann í ár. Þar er að finna heildarlistann yfir fyrirtækin auk tölfræðisamantektar og viðtala við marga stjórnendur þeirra fyrirtækja sem teljast framúrskarandi.

Athygli vekur að fyrirtækjum í bygginga- og mannvirkjagerð fjölgar talsvert á listanum í ár og hið sama á við um fyrirtæki í sjávarútvegi og smásölu. Hins vegar fækkar fyrirtækjum í ferðaþjónustu mikið, og kemur það ekki á óvart.

Marel vermir efsta sæti listans í ár en röðunin á listann byggir á ársniðurstöðu úr rekstri allra fyrirtækjanna. Marel hefur verið samfleytt á lista Creditinfo frá árinu 2013. Athygli vekur að Eyrir Invest er í öðru sæti listans en það félag á stærsta einstaka hlutinn í Marel. Landsvirkjun vermir þriðja sætið.

Hátíð í Hörpu

Listinn yfir Framúrskarandi fyrirtæki er nú birtur í 12. sinn og munu stjórnendur fyrirtækjanna og starfsmenn þeirra koma saman í Hörpu nú síðdegis til þess að fagna árangrinum.

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir er framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi.
Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir er framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi. Ljósmynd/Creditinfo

„Afar ánægjulegt er að sjá fjölgun Framúrskarandi fyrirtækja á milli ára og þá sérstaklega í ljósi þess hversu erfitt árið var mörgum fyrirtækjum og þá sér í lagi þeim sem orðið hafa fyrir hvað mestum neikvæðum áhrifum vegna kórónuveirufaraldursins. Líklega er alveg óhætt að segja að fyrirtækin sem á listanum eru í ár séu sannarlega þau sem skara fram úr, en um leið endurspeglar hann áhrif efnahagsaðstæðna á einstaka geira. Til að teljast framúrskarandi þarf að uppfylla strangar kröfur og fyrirtækin sem það gera eru líklegri til að ná árangri og standast áföll. Fyrirtækin á listanum mega því vel vera stolt af árangri sínum,“ segir Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi.

51 stórt fyrirtæki dettur út en 48 ný koma inn

124 ný fyrirtæki koma inn á listann í ár. Hins vegar féll 51 fyrirtæki sem flokkast sem stór út af listanum og þá helst vegna neikvæðrar rekstrarniðurstöðu og neikvæðrar ársniðurstöðu. 4% fyrirtækjanna detta hins vegar út vegna lækkunar á lánshæfismati og 2% skiluðu ekki ársreikningi í tíma. Hins vegar bætast 48 stór fyrirtæki inn á listann. Efstu fimm fyrirtækin eru Landsnet, Útgerðarfélag Reykjavíkur, Búseti, FISK-Seafood og Þorbjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka