Um næstu áramót verður verslunum Húsasmiðjunnar á Dalvík og Húsavík lokað. Rekstur þeirra verður í framhaldinu sameinaður í nýrri verslun sem opnuð verður við Freyjunes á Akureyri á fyrri hluta næsta árs. Þetta segir í tilkynningu frá Húsasmiðjunni.
Fram kemur að öllum fastráðnum starfsmönnum á Húsavík og Dalvík verður boðið að starfa áfram í nýju versluninni.
Í tilkynningunni segir að rekstrargrundvöllur Húsasmiðjunnar á Dalvík og Húsavík hafi reynst þungur undanfarin ár þrátt fyriri velvilja bæði heimamanna og fyrirtækisins. Hörð samkeppni, aukin vefverslun og fleiri breytingar á markaði hafi gert það að verkum að rekstur byggingarvöruverslana og timbursölu á sér ekki grundvöll á þessum stöðum.
„Við hjá Húsasmiðjunni höfum átt mjög gott samband við viðskiptavini okkar á Húsavík og Dalvík um árabil og er þessi ákvörðun, okkur þungbær,“ er haft eftir Árna Stefánssyni, forstjóra Húsasmiðjunnar, í fréttatilkynningunni.
„Við munum þrátt fyrir þessa breytingu kappkosta að þjónusta viðskiptavini á Norðurlandi vel, þar á meðal á Dalvík og Húsavík. Jafnframt mun söluskrifstofa verða opnuð á Húsavík í upphafi næsta árs með ráðgjöf fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki.“