„Það liggja ekki miklar upplýsingar fyrir um möguleg kaup á Mílu að svo stöddu svo að það er erfitt að segja nákvæmlega til um hvaða möguleikar eru uppi,“ segir Snorri Jakobsson, greinandi hjá Jakobsson Captal í samtali mbl.is spurður út í mögulega aðkomu íslenskra lífeyrissjóðum að kaupum á Mílu.
Greint hefur verið frá því að franska fyrirtækið Ardia hafi skrifað undir samkomulag um einkaviðræður og helstu skilmála vegna áformaðra kaupa þess á Mílu, dótturfélagi Símans.
Um er að ræða alþjóðlegt sjóðsstýringarfyrirtæki með höfuðstöðvar í París. Það leggur áherslu á ábyrgar langtímafjárfestingar. Félagið er í meirihlutaeigu starfsfólks, sem á 70% í félaginu.
„Möguleg aðkoma íslenskra lífeyrissjóða að kaupum á Mílu myndi alltaf velta á hver konar kjör þeir eru tilbúnir að sætta sig við,“ segir Snorri og útskýrir að erlendir fjárfestar geti sætt sig við allt aðrar ávöxtunarkröfur en það sem þekkist á Íslandi.
Almennt er ekki ráðist í sölu sem þessa, þar sem innviðir sem nota á áfram eru seldir, nema að verðið sé gott og rekstrarleigusamningur hagstæður.
„Ef af verður, er um að ræða stöðugt sjóðstreymi, mjög öruggar tekjur og vaxtaumhverfið erlendis er allt annað en það er hérna heima. Þess vegna geta erlendir fjárfestingarsjóðir leyft sér slíkar fjárfestingar, þar sem fjármögnunarkostnaður er allt annar. Á meðan gæti Síminn losað um töluvert fjármagn, greitt niður skuldir eða ráðist í fjárfestingar og leigt kerfið á hagstæðum kjörum,“ segir Snorri.
Hann segir að fjárfesting sem þessi sé á borð við ríkisskuldarbréf. „Ríkisskuldabréf erlendis eru á allt öðrum kjörum en gengur og gerist hér á landi. Þess vegna er sótt í svona fjárfestingar. Það er leitun að öruggri verðtryggðir fjárfestingu“