N1 vinnur að opnun þjónustustöðvar við Mývatn og er stefnt að því að hún hefji rekstur næsta vor.
Þar verður boðið upp á eldsneyti, hraðhleðslu fyrir rafmagnsbíla, veitingar, vörur og þjónustu sem snýr að þeim sem eru á ferðinni um landið, að því er kemur fram í tilkynningu.
„N1 hefur unnið að því að þétta enn frekar stærsta þjónustunet landsins við þjóðvegakerfið og opnun þessarar þjónustustöðvar er liður í því. Við teljum mikilvægt að þeir sem eru á ferðinni geti sótt sér alla þá orku sem nauðsynleg er, hvort sem er í formi eldsneytis, rafmagns eða veitinga og við erum sannfærð um að ferðalangar kunni að meta að geta sótt sér þá þjónustu á þessum stað,“ segir Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, í tilkynningunni.
Á þjónustustöðinni verður að minnsta kosti ein 200kw hraðhleðslustöð en reiknað er með að þær verði allt að þrjár talsins í framtíðinni.
„Það er okkur mikið metnaðarmál að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á bestu mögulegu þjónustu, hvar svo sem þeir eru eða hvert svo sem leiðin liggur. Mývatn verður sífellt vinsælli áfangastaður og því liggur beint við að auka þjónustu okkar þar,“ segir Hinrik Örn.
Nú þegar eru hraðhleðslustöðvar við Skógarlind, Háholt, á Hvolsvelli, í Borgarnesi, á Blönduósi, Staðarskála, Vík, Egilsstöðum, Sauðárkróki, Ísafirði og Kirkjubæjarklaustri. Nýja þjónustustöðin verður á Hraunvegi 8 við Mývatn.