Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segist bjartsýnn á að samkomulag náist um skilyrði sem stjórnvöld setja fyrir sölunni á Mílu og að tryggja eigi þjóðarhagsmuni.
Í kvöldfréttatíma ríkisútvarpsins sagðist ráðherrann hafa átt fund með fulltrúum franska sjóðsstýringarfyrirtækisins Ardian, kaupendum Mílu. Tók hann fram að óskað hefði verið eftir því að salan á Mílu yrði rædd á ný í þjóðaröryggisráði.
Skilyrði stjórnvalda lúti þá fyrst og fremst að því hvort tiltekinn búnaður sé í lögsögu á Íslandi.
„Þetta snýst líka um, eins og kom fram í frumvarpi til nýrra fjarskiptalaga, að ákveðinn búnaður að mati Fjarskiptastofu sem þurfi, og eftir ákveðna rýni fleiri ráðuneyta, sé frá löndum sem við erum í varnar- og öryggissamstarfi við, það er að segja fyrirtækjum,“ sagði Sigurður Ingi.
„Og í þriðja lagi snýst þetta um upplýsingagjöf og á hverjum tíma sé upplýst til að mynda um raunverulega eigendur og fleiri hluti sem við erum að fara nánar ofan í.“
Farið sé fram á samtal með það að markmiði að ná samkomulagi. Hann hafi fulla trú á að því verði náð, kaupin séu gerð með slíkum fyrirvara.