Þóroddur Bjarnason
Kaup franska sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian á fjarskiptafélaginu Mílu, sem tilkynnt var um nú í morgun, eru langstærstu viðskipti á Íslandi á síðustu þrettán árum. Fjármunirnir sem skipta um hendur eru 34% meiri en í næst stærstu viðskiptunum þar á undan.
Ardian kaupir Mílu á rúma 78 milljarða íslenskra króna, eða 519 milljónir evra, en næst stærstu viðskipti þar á undan fóru fram árið 2015 þegar RPC Group keypti umbúðafyrirtækið Promens á 58 milljarða, eða 386 milljónir evra. Þriðja stærsta fjárfestingin eru svo kaup leikjafyrirtækisins Pearl Abyss frá Hong Kong árið 2018 á tölvuleikjafyrirtækinu CCP á 55,5 milljarða króna, eða 368 milljónir evra.
Sé farið neðar í listann sem Íslandsstofa tók saman þá má sjá að í fjórða sætinu eru kaup Amgen á Decode árið 2012 fyrir 48,5 milljarða króna, kaup Digital9 á gagnaveri Verne Global árið 2021 á 41 milljarð, fjárfesting Rio Tinto Alcan í álverinu í Straumsvík fyrir 41 milljarð árið 2010, og fjárfesting í kísilmálmverksmiðjunni PCC á Bakka árið 2018 upp á 34 milljarða.