Landsmenn sýna bitcoin mikinn áhuga

Kjartan telur að stemningin á rafmyntamarkaðinum sé eins og í …
Kjartan telur að stemningin á rafmyntamarkaðinum sé eins og í desember, áhuginn sé að vakna en bitcoin-æðið sem sást í janúar er ekki enn komið yfir landsmenn. AFP

Verð á bitcoin fór í hæstu hæðir fyrr í vikunni, þar sem verðið á einu bitcoin fór upp í 66.930 bandaríkjadali. Kjartan Ragnars, stjórnarmaður og regluvörður hjá Myntkaupum, segist sjá mikla aukningu á viðskiptum með myntina í þessum mánuði.

Hann segir að gengi bitcoin og velta fyrirtækisins haldist mikið í hendur en veltan á bitcoin-viðskiptum í gegnum fyrirtækið í þessum mánuði sé komin yfir tvær milljónir evra sem samsvarar rúmlega 300 milljónum króna.

Árið hjá Myntkaupum hafi byrjað gríðarlega vel og vorið einnig en eftir hrun rafmyntarinnar 19. maí hafi orðið ákveðin þáttaskil.

„Við sáum veltuna á mánuði fara niður yfir sumartímann um helming. Þá var hún í kringum 150 milljónir. Það var lítið að gera miðað við mánuðina fyrir hrunið,“ segir hann og bætir við að merkilegt sé að þegar gengi bitcoin lækkar um helming þá virðist sem fæstir vilja fjárfesta í rafmyntinni. En á móti þegar gengi bitcoin hefur farið upp um 200% á þremur mánuðum að þá sækjast fjárfestar í mun meiri mæli í rafmyntina. Þetta eigi þó við um markaði almennt.

Kjartan segir að rafmyntir séu óneitanlega orðnar alvöru eignaflokkur og …
Kjartan segir að rafmyntir séu óneitanlega orðnar alvöru eignaflokkur og um 150 til 200 milljónir manna eigi nú bitcoin. Ljósmynd/Myntkaup

Öruggara að fjárfesta Þegar verðið er hærra

„Það má segja eitt gegn þessu, í ákveðnum skilningi er öruggara að fjárfesta í bitcoin eftir því sem verðmiðinn er hærri. Það þýðir einfaldlega að það geymir meiri verðmæti og fleiri eru komnir inn á þennan markað.“

„Þess vegna heyrir maður að margir lífeyrissjóðir úti séu ragir við það að fjárfesta í bitcoin og eru fyrst að skoða þetta núna þegar markaðsvirðið er meira en 1 billjón dala.“

Kjartan segir að rafmyntir séu óneitanlega orðnar alvöru eignaflokkur og um 150 til 200 milljónir manna eigi nú bitcoin. Þess vegna sækjast fleiri og fleiri fjárfestar í rafmyntir.

Fjöldi viðskiptavina sexfaldast

„Við sjáum heilmikla aukningu á nýjum skráningu. Við erum núna í 6.076 viðskiptavinum og byrjuðum árið í 1.100 viðskiptavinum.“

Kjartan telur að stemningin á rafmyntamarkaðinum sé eins og í desember, áhuginn sé að vakna en bitcoin-æðið sem sást í janúar er ekki enn komið yfir landsmenn.  

„Ef bitcoin heldur áfram að hækka, þá gæti ég trúað að við fáum þessa janúar stemningu aftur í nóvember eða desember.“

Gríðarlegur áhugi á ethereum

Kjartan segir þá hjá Myntkaupum vera frekar íhaldssama hvað varðar hvaða tegundir á rafmyntum sem þeir bjóða upp á og höfðu í byrjun aðeins planað að bjóða upp á bitcoin-viðskipti í gegnum sinn vettvang.

En vegna gríðarlegrar eftirspurnar hafa þeir ákveðið að bjóða upp á viðskipti með ethereum í nóvember sem er næst stærsta rafmynt heims miðað við markaðsvirði.

Mikill kostnaður að koma peningunum úr landi

Myntkaup er í raun milliliður viðskiptavina og Coinbase, sem þýðir að viðskiptavinir kaupa bitcoin af Coinbase í gegnum Myntkaup. Að sögn Kjartans liggur virði Myntkaupa í einfaldleikanum og skjótvirkninni.

„Það sem fólk er að átta sig á að jafnvel þótt það nái að kreista fram hagstæðari þóknanir erlendis, þá er oft svo mikil kostnaður við það að koma peningunum úr landi,“ segir hann og bætir við að fólk sé ekki vant því að framkvæma SWIFT greiðslur og tilgreina IBAN upplýsingar og síðan bíða í nokkra daga eftir að millifærslan sé framkvæmd.

„Þess vegna leggjum við áherslu á að vera heiðarlegir, við erum með gjaldskrá og við erum heiðarlegir með hvert gjaldið okkar er. Á sama skapi leggjum við áherslu á að vera ekki nein með falin gjöld.“

Hentugra að taka út hagnað í gegnum fyrirtækið

Kjartan segist sjá að fólk ákveði í auknum mæli að fjárfesta í rafmyntum í gegnum erlendar rafmyntakauphallir og þegar það vilji taka út hagnaðinn færir það bitcoin yfir á Myntkaupa-reikninginn sinn og selji þar. Þannig komist fólk í gegnum margra daga ferli að bíða eftir peningunum.

„Það virðist vera spyrjast út að þetta sé miklu hentugri leið til að taka út hagnað, jafnvel þótt rafmyntirnar séu keyptar annarsstaðar. Þeir sem eru að versla aðrar rafmyntir og vilja taka út hagnaðinn, skipta þeim yfir í bitcoin og færa það yfir til okkar og selja þannig.“

Þannig fær fólk hagnaðinn nánast alltaf samdægurs, að sögn Kjartans. 

Hann segir þetta klárlega vera jákvæða þróun fyrir fyrirtækið og þetta sé tekjuliður sem þeir hafi ekki búist við að yrði mikill en svo varð raunin önnur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK