Vilja sæti við kjarasamningaborðið

Sigmar Vilhjálmsson er einn þeirra átta sem skipar undirbúningsstjórn Atvinnufjelagsins.
Sigmar Vilhjálmsson er einn þeirra átta sem skipar undirbúningsstjórn Atvinnufjelagsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þessi samtök eru eins og Samtök atvinnulífsins nema eingöngu með hagsmuni lítilla og meðalstórra fyrirtækja að leiðarljósi. Það þýðir að við viljum fá sæti við kjarasamningaborðið, við kjarasamningaviðræður,“ segir Sigmar Vilhjálmsson um Atvinnufjelagið sem eru ný hagsmunasamtök sem hann ásamt hópi sjö annarra hafa komið á fót.

Að sögn Sigmar eru engin önnur samtök eða félag sem hafa eingöngu hagsmuni lítilla eða meðalstórra fyrirtækja að leiðarljósi. Er því brýn þörf fyrir því að félag á borð við þetta komist á laggirnar.

„Það eru í rauninni bara Samtök atvinnulífsins og eðli þeirra er með þeim hætti að þegar hagsmunir fara ekki saman milli stórra og minni fyrirtækja, þá ráða hagsmunir þeirra stóru för. Þannig eru samtökin bara upp sett.“

70% telja þörf á samtökunum

Að sögn Sigmars hefur lengi verið þörf á samtökum á borð við Atvinnufjelagið en aldrei hefur þó neinn riðið á vaðið og komið slíkum samtökunum á fót. Telur hann það megi m.a. rekja til þess að atvinnurekendur hafi takmarkaðan tíma aflögu til að ráðast í slíkt verkefni. Hafi því verið kjörið tækifæri að nýta þann lausa tíma sem skapaðist í Covid til að láta verða af þessu.

„Fyrir rúmu ári síðan tala ég um þetta mál opinberlega og fékk í kjölfarið gríðarlega sterk viðbrögð. Við bjuggum þá til átta manna hóp sem við köllum undirbúningsstjórn að þessum samtökum.“

Átta manna hópurinn að baki Atvinnufjelagsins ákvað síðan að framkvæma könnun í byrjun júní þessa árs til að kanna áhuga fyrir samtökunum. Að sögn Sigmars var niðurstaðan skýr, en 70% af þeim 600 fyrirtækjum sem svöruðu töldu að skortur væri á slíkum samtökum. „Þegar það lá fyrir fórum við að þétta taktinn í þessu og ætlum að setja á fót stofnfund.“

Ein samtök geta ekki staðið fyrir alla

Sigmar segir það óhugsandi stöðu að ein samtök standi vörð um hagsmuni allra fyrirtækja enda geti aðstæður í smærri og stærri fyrirtækjum verið afar ólíkar. Eigi þá lítil og meðalstór fyrirtæki oft erfitt með að laga sig að þeim kröfum sem eiga frekar við um stórfyrirtæki. Nefnir hann sem dæmi styttingu vinnuvikunnar og kjarasamningana.

„Lítil og meðalstór fyrirtæki eru sjaldnast að borga lágmarkslaun. Þau eru oftast ef ekki bara alltaf að borga hærra en það, þannig að flatar launahækkanir eru að koma ofan á laun sem eru hærri en lágmarkslaun. Kjarasamningar þurfa að taka mið af því umhverfi sem við búum við í dag.“

Auk þess vekur Sigmar athygli á vexti ferðaþjónustuiðnaðarins og hvernig starfshættir í þeim iðnaði eigi illa við um þá kjarasamninga sem eru við lýði.

„Ferðaþjónusta er orðin ein stærsta atvinnugrein þjóðarinnar. Vinnuálagið í þeim bransa er ekki milli átta og fjögur á daginn. Það er á kvöldin og um helgar. Við erum enn þá að horfa á kjarasamninga sem miða við dagvinnu, frá átta til fjögur, með kvöld og helgarálagi. Það þarf að endurskoða hvernig við nálgumst kjaramál því allt umhverfið hefur breyst. Kjarasamningar þurfa að koma sér inn í rútínu.“

Stofnfundur félagsins fer fram í Grósku 31. október næstkomandi. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK