Salan gæti haft jákvæðar afleiðingar

Míla er dótturfélag Símans.
Míla er dótturfélag Símans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Salan á Mílu til franska sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian gæti haft jákvæðar afleiðingar. Það fari þó alfarið eftir hegðun félagsins á markaði. Þetta segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Fjarskiptastofu, í samtali við mbl.is.

„Ef þetta nýja félag stendur við það sem það hefur sagt í fjölmiðlum um að setja verulegan kraft í að fjárfesta í innviðum, t.d. með því að ljúka ljósleiðaravæðinga þorpanna og ýmislegt fleira sem við myndum telja til framfarahorfa, þá myndi ég segja að það væru væntanlega jákvæðar afleiðingar.“

Salan muni einnig koma til með að brjóta upp tengingu Símans við Mílu, sem yrði samkeppnisaðilum Símans í hag, að sögn Hrafnkels.

„Míla verður þá sjálfstæðari frá Símanum og keppinautar Símans geta þá keypt þjónustu frá Mílu án þess að hafa áhyggjur af því að eignatengsl séu milli Mílu og Símans.

Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.
Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar. Ljósmynd/Aðsend

Hyggjast funda um næstu skref í dag

Hann segir fulltrúa Fjarskiptastofu þó ekki hafa myndað sér skoðun á nýja félaginu fyrirfram enda sé það ekki í þeirra verkahring.

„Við höfum bara eftirlit með þessum aðilum og erum ekkert að tjá okkur um það hvert okkar viðhorf er. Það kemur hins vegar svolítið í ljós þegar við sjáum hvernig félagið hegðar sér á markaðnum.“

Þeir hafi þó fundað með fulltrúum Ardian í tvígang og stefna að því að funda um næstu skref innanhúss í dag.

„Það er búið að fjalla um undirbúning þessarar sölu í fjölmiðlum í tvö til þrjú ár og nú liggur það fyrir hvernig þessi mál munu fara.“

Hafa ekki daglegt eftirlit með búnaði

Hlutverk Fjarskiptastofu er tvíþætt, annars vegar að framfylgja fjarskiptaregluverkinu, eða fjarskiptalögum sem felur meðal annars í sér greiningu á fjarskiptamarkaðinum til að efla samkeppni. Hins vegar að framfylgja lögum um net- og upplýsingaöryggi mikilvægra innviða. Í því felst viðamikið eftirlit með m.a. öllum radíófjarskiptum á landinu, að sögn Hrafnkels.

„Við stjórnum ljósvakanum á Íslandi, ráðstöfum tíðniheimildum, erum með mannskap og búnað til að mæla radíótruflarnir og fylgjumst með notkun fyrirtækjanna á þeirri tíðniauðlind sem er hér í landinu.“

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra átti einnig fund með fulltrúum Ardian í sumar. Í samtali við Rúv segir hann að óskað hafi verið eftir því að salan á Mílu verði rædd á ný í þjóðaröryggisráði. Þá segist hann bjartsýnn á að samkomulag náist um skilyrði sem stjórnvöld setja fyrir sölunni og tryggja eigi þjóðarhagsmuni.

„Skilyrðin lúta þá að því fyrst og fremst um hvort tiltekinn búnaður sé í lögsögu á Íslandi. Þetta snýst líka um eins og kom fram í frumvarpi til nýrra fjarskiptalaga um að ákveðinn búnaður að mati Fjarskiptastofu sem þurfi og eftir ákveðna rýni fleiri ráðuneyta sé frá löndum sem við erum í varnar- og öryggissamstarfi við, þ.e.a.s fyrirtækjum,“ segir Sigurður.

Inntur eftir því segir Hrafnkell að Fjarskiptastofa kortleggi óvirka fjarskiptainnviði og haldi saman gagnagrunni um ljósleiðara, fjarskiptaturna, skiptibox og fleira. Hins vegar fylgist stofnunin ekki með búnaði fyrirtækjanna dagsdaglega hvað varðar fjarskiptanetin og öryggi þeirra. 

„Við erum hins vegar með eftirlit sem við köllum stjórnkerfi upplýsingaröyggis, sem er gríðarlega mikilvægt. Í gegnum það eftirlit fylgjumst við með því hvort fyrirtækin geri skynsamlegar ráðstafanir til þess að efla öryggi fjarskiptaneta sinna þannig að þau virki og standi af sér áföll þegar svo ber undir. Það er vaxandi þáttur í okkar starfsemi,“ segir Hrafnkell.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK