Hagnaður Facebook var talsvert meiri en búist var við á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Hagnaðurinn nam níu milljörðum bandaríkjadala, andvirði 1.163 milljarða króna, þrátt fyrir ásakanir á hendur tæknirisanum fyrir að hirða ekki nóg um netöryggi notenda.
Uppljóstrarinn og fyrrverandi starfsmaður Facebook Frances Haugen birti nýverið mikið magn skjala innan úr herbúðum fyrirtækisins, sem eiga að sýna að það sé uppteknara af hagnaði sínum en öryggi notenda miðilsins.
Þar að auki berast fréttir af því frá Bamdaríkjunum að Facebook hafi tekist illa að undanförnu að kveða hatursorðræðu á miðlinum í kútinn.
Um þetta sagði Mark Zuckerberg, stofnandi og eigandi Facebook, við hluthafa þess á mánudag: „Það sem við sjáum eru markvissar tilraunir til þess að nota skjöl, sem lekið hefur verið, til þess að draga upp ranga mynd af fyrirtæki okkar.“