Félag íslenskra kvenna í atvinnulífinu í Kaupmannahöfn (FKA-DK) fagnaði í gær kvennafrídeginum með hátíð í sendiherrabústaðnum í boði sendiherra Íslands, Helgu Hauksdóttur.
Í annað sinn í sögu félagsins voru hvatningarverðlaun FKA-DK veitt íslenskri konu í Danmörku sem sýnt hefur frumkvæði, styrk og verið öðrum konum hvatning í starfi. Alls hlaut 21 kona tilnefningu. Dómnefnd skipuðu Helga Hauksdóttir sendiherra, Vigdís Finnsdóttir, fyrrverandi verðlaunahafi (2019), og Auður Kristín Welding, fyrrverandi stjórnarmanneskja FKA-DK.
Viðurkenninguna hlaut Herdís Steingrímsdóttir, vinnumarkaðshagfræðingur og dósent við Copenhagen Business School (CBS). Hefur hún þar fjölmörg ár að baki, en áður sinnti hún náms- og fræðistörfum við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum. Herdís hefur nýlega fengið 120 milljóna króna styrk til rannsókna um fæðingarorlofsmál og verkaskiptingu foreldra á heimilum, bæði á Íslandi og í Danmörku.
Síðan 2014 hafa íslenskar konur í atvinnulífinu í Danmörku hist reglulega með það að markmiði að styrkja tengslanet og efla sýnileika kvenna í atvinnulífinu. Félagsskapurinn telur nú yfir 900 íslenskar konur.