Kortavelta Íslendinga í útlöndum eykst um 85%

Innanlands mældist samdráttur í neyslu í fyrsta skipti síðan í …
Innanlands mældist samdráttur í neyslu í fyrsta skipti síðan í apríl á síðasta ári. mbl.is/​Hari

Velta innlendra greiðslukorta jókst um 5% prósent á milli ára í september miðað við fast gengi og verðlag, en aukningin er alfarið drifin áfram af utanlandsferðum og neyslu Íslendinga erlendis. Innanlands mældist samdráttur í neyslu í fyrsta sinn síðan í apríl árið 2020. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 67,7 milljörðum króna og dróst saman um rúm 4% milli ára á föstu verðlagi. Kortavelta Íslendinga erlendis nam 15,4 milljörðum króna og jókst um 85% milli ára miðað við fast gengi.

Þrátt fyrir að kortavelta innanlands hafi dregist saman á milli ára er neyslan örlítið meiri en hún var á sama tíma árið 2019 og Íslendingar því enn duglegir að neyta vara og þjónustu innanlands þó áherslan færist út fyrir landsteinana. Neysla Íslendinga erlendis mælist þó enn um 12% lægri en hún var á sama tíma árið 2019.

Spá því að einkaneysla aukist um 5% í ár

Hagfræðideild Landsbankans gaf nýverið út þjóðhags- og verðbólguspá til ársins 2024 þar sem gert er ráð fyrir því að einkaneysla aukist um 5% í ár, 4,5% á næsta ári og um 3% næstu tvö árin þar á eftir. Spáin gengur út frá því að heimilin muni ganga á uppsafnaðan sparnað sem varð til í samkomutakmörkunum vegna faraldursins og er því að miklu leyti um að ræða tilfærslu á neyslu milli ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK