Þorgerður Arna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Landeyjar, sem á meirihluta í fasteignaþróunarfélaginu Arnarlandi, segir að síminn hjá sér hafi vart stoppað frá því tilkynnt var um verkefnið í fjölmiðlum á dögunum. Mörg spennandi fyrirtæki í fremstu röð á Íslandi hafi lýst áhuga á að koma með starfsemi sína á svæðið.
„Arnarlandið er byggð þar sem lýðheilsa og lífsgæði verða höfð að leiðarljósi. Þetta á að verða miðstöð heilsutækni á Íslandi. Svæðið mun skiptast í tvennt þar sem atvinnustarfsemin verður nær Hafnarfjarðarveginum og myndar um leið skjól fyrir íbúðabyggðina,“ segir Þorgerður í samtali við ViðskiptaMoggann.
Hún segir það hafa verið sýn aðstandanda Arnarlands, Landeyjar, sem fer með 51% eignarhlut á móti Ósum, að vöntun væri á klasa fyrir heilsugeirann. „Eins og með aðra atvinnugeira er það vænlegt til árangurs þegar fólk í svipaðri starfsemi, sem talar sama tungumál og er á sömu línu, safnast saman á einn stað. Við teljum að með þessu myndist kraftmikið umhverfi þar sem nýjar hugmyndir og tækifæri fæðast.“
Auk þeirra tvö hundruð starfsmanna Ósa sem koma inn á svæðið þegar fyrirtækin í samstæðunni flytja í hverfið er fyrirséð, miðað við áhuga fyrirtækja á uppbyggingunni, að sú tala verði fljót að hækka. Lögð verður áherslu á að opna dyrnar fyrir fyrirtæki sem sérhæfa sig í nýsköpun, þróun og þjónustu innan heilsugeirans, að sögn Þorgerðar.
Lestu ítarlegt viðtal við Þorgerði í ViðskiptaMogganum í dag.