Vörusala Símans á þriðja fjórðungi ársins nemur 6.267 milljónum króna og dróst saman um 0,6% frá sama fjórðungi fyrra árs. Rekstrarhagnaður jókst hins vegar og nam 1.526 milljónum, samanborið við 1.338 milljónir í fyrra. EBITDA var 2.974 milljónir króna og hefur aldrei verið jafn mikil á einum fjórðungi í rekstrarsögu félagsins.
Hagnaður félagsins nam 1.057 milljónum og jókst um 43 milljónir frá fyrra ári.
Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta jókst verulega og nam 2.968 milljónum, samanborið við 2.213 milljónir á sama tímabili 2020.
Vaxtaberandi skuldir að leiguskuldbindingum meðtöldum námu 32,6 milljörðum og jukust verulega frá áramótum þegar þær stóðu í 21,5 milljörðum. Hreinar vaxtaberandi skuldir að leiguskuldbindingum meðtöldum voru 25,6 milljarðar og jukust um 4,8 milljarða frá áramótum. Hrein fjármagnsgjöld námu 218 milljónum á fjórðungnum en voru 143 milljónir á sama tímabili fyrra árs.
Eigið fé Símans stóð í 31,3 milljörðum króna í lok fjórðungsins og eiginfjárhlutfallið var 45%. Hefur það lækkað um 6 milljarða króna frá áramótum. Orri Hauksson segir rekstrarárangur félagsins skýrast af stýringu kostnaðar. Tekjumyndun sé hins vegar ærið verkefni enda mikil samkeppni á fjarskiptamarkaði.
Tekjur vegna gagnaflutnings og sjónvarpsþjónustu hafi staðið í stað vegna hægagangs við framleiðslu sjónvarpsefnis á heimsvísu. Þá hafi vörusala minnkað „enda hafa Íslendingar aftur fengið færi á að kaupa vörur í heimsóknum sínum erlendis.“ Segir hann þó að farsímatekjur séu í vexti á ný og að það sé gleðiefni. ses@mbl.is