Icelandair hefur ráðið til sín þrjá nýja stjórnendur til að efla enn frekar þjónustu við farþega sem og stafræna þróun. Guðný Halla Hauksdóttir hefur verið ráðin sem forstöðumaður þjónustuupplifunar, Hákon Davíð Halldórsson sem forstöðumaður framlínu á sölu- og þjónustusviði, og Jóhann Valur Sævarsson sem forstöðumaður gagna og sjálfvirkni.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair.
Þar segir að Guðný Halla hafi umfangsmikla reynslu á sviði þjónustu við viðskiptavini og a hún hafi verið forstöðumaður þjónustuupplifunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur síðastliðin sex ár. Áður hefur hún leitt þjónustu hjá Vodafone og Tal og starfað sem sérfræðingur þjónustumála hjá VÍS.
Hákon Davíð starfaði sem forstöðumaður stafrænnar umbreytingar hjá Sýn áður en hann kom aftur til liðs við Icelandair en á árunum 2018-2020 starfaði hann á sviði þjónustuupplifunar hjá félaginu. Hákon Davíð hefur víðtæka starfsreynslu úr tækni- og fjarskiptageiranum, eins og segir í tilkynningunni, en hann starfaði sem sérfræðingur í viðskiptatengslum hjá Símanum um fimm ára skeið og áður sem markaðsstjóri hjá Opnum kerfum.
Jóhann Valur hefur mikla reynslu úr flugheiminum en hann starfaði hjá Air Atlanta frá árinu 2019 þar sem hann stýrði teymum í hugbúnaðarþróun. Þá starfaði hann meðal annars sem gagnaverkfræðingur og við samþættingu kerfa hjá WOW air á árunum 2015-2019. Áður starfaði hann hjá Nova á um fimm ára skeið.