Hugbúnaðarfyrirtækið SalesCloud hefur gert samning við fyrirtækið Nágranna um heimsendingarþjónustu þess síðarnefnda fyrir viðskiptavini SalesCloud og Yess, að því er fram kemur í tilkynningu.
Veitingastaðir og aðrir viðskiptavinir SalesCloud geta því nú með einföldum hætti boðið upp á heimsendingar í samvinnu við heimsendingarþjónustuna Nágranna. Markmiðið er að matarpantanir séu komnar heim til viðskiptavina 15 mínútum eftir að þær eru tilbúnar.
Allir veitingastaðir sem eru með hugbúnað frá SalesCloud geta nýtt sér þessa þjónustu. Þá munu notendur markaðstorgsins Yess einnig njóta góðs af þessu.
SalesCloud býður upp á notendavænt sölukerfi í skýinu sem er meðal annars þróað og hannað með þarfir veitingastaða og smásölu í huga.
Með þessu stígi SalesClouds inn í þróun markaðs heimsendingarþjónustu á Íslandi, að sögn Helga Andra Jónssonar stofnanda SalesCloud.
„Þessi einföldun verður til þess að veitingastaðir sem nýta sér okkar lausnir og þjónustu geta sett upp aðgang hjá Nágrönnum. Við bjóðum þeim einnig að setja upp svæði á appinu þeirra og heimasíðu, stöðunum að kostnaðarlausu. Eins er hægt að bjóða upp á heimsendingarþjónustu Nágranna þegar pantað er í gegnum heimasíðu veitingastaða eða í Yess appinu. Kostnaðurinn við það síðastnefnda er 1.200 krónur og greiðist af viðskiptavininum þegar pantað er. Við sjáum svo um að koma sendingarkostnaðinum í hendur Nágranna þannig að flækjustigið er ekkert fyrir veitingastaðina,“ er haft eftir honum í tilkynningunni.
Nágrannar er nýtt og spennandi fyrirtæki sem býður upp á snögga og örugga heimsendingarþjónustu. Markmið fyrirtækisins er að sendingar séu komnar til viðskiptavina 15 mínútum eftir að þær eru tilbúnar.
„Við ætlum að efla vaxandi umhverfi fyrir heimsendingu hér á landi og leggjum mikla áherslu á, líkt og SalesCloud, að fara fram úr væntingum viðskiptavina með því að taka alltaf aukaskref þegar kemur að gæðum þjónustu. Við ætlum hreinlega að gera þetta að bestu heimsendingarþjónustu á Íslandi“, er haft eftir Nicholas Steiner framkvæmdastjóri Nágranna.
Hægt er að panta í gegnum Yess appið og í gegnum heimasíður veitingastaðanna.