Vilhjálmur Þór Svansson hefur verið ráðinn forstöðumaður þjónustu- og lögfræðisviðs Creditinfo á Íslandi. Vilhjálmur Þór kemur til Creditinfo frá Arion banka þar sem hann hefur starfað frá árinu 2011. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Creditinfo.
Vilhjálmur er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og með réttindi héraðsdómslögmanns. Hann er með próf í verðbréfaviðskiptum og hefur lokið CIPP/E-vottun sem er staðfesting á sérfræðiþekkingu á persónuverndarreglugerð. Hann hefur starfað með starfshópi Samtaka fjármálafyrirtækja vegna innleiðingar á frumvarpi til laga um upplýsingar um sjálfbærni hjá fjármálafyrirtækjum og átt sæti í faghópi Stjórnvísi um persónuvernd.
Hann segist hlakka mjög til þess að starfa hjá Creditinfo þar sem reynsla hans og sérþekking muni koma til með að nýtast vel.
Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, býður hann velkominn til starfa og segir fyrirtækið taka honum fagnandi.
„Vilhjálmur býr yfir yfirgripsmikilli reynslu á sviði verkefnastjórnunar, lögfræðiráðgjafar og persónuverndar, reynslu sem mun nýtast Creditinfo vel.“
Creditinfo var stofnað í Reykjavík árið 1997. Fyrirtækið er leiðandi upplýsinga- og þjónustufyrirtæki á heimsvísu, sem sérhæfir sig í miðlun fjárhags- og viðskiptaupplýsinga og ráðgjöf tengdri áhættumati og áhættustýringu fyrirtækja.