Færa Bandaríkjunum ítalskan varning

Fraktflugið kemur í kjölfar samnings við þýskaflutningamiðlunarfyrirtækið DB Schenker. En …
Fraktflugið kemur í kjölfar samnings við þýskaflutningamiðlunarfyrirtækið DB Schenker. En vorið 2020 flutti Icelandair Cargo lækningavörur frá Kína til Evrópu á vegum fyrirtækisins. Ljósmynd/ Icelandair

Icelandair Cargo mun flytja frakt frá Mílanó á Ítalíu til New York í Bandaríkjunum, með viðkomu á Íslandi, frá og með deginum í dag. Fraktflugið verður þrisvar í viku, mánudaga, miðvikudaga og föstudaga, næstu tvo mánuði í það minnsta.

Flugvélarnar sem notaðar verða í verkefnið eru fraktvélar af gerðinni Boeing 757.

Samhliða vöruflutningunum á milli Ítalíu og Bandaríkjanna verður flogið með sjávarafurðir frá Íslandi sem og aðrar vörur sem fluttar eru hingað til lands.

Samstarf við DB Schenker

Fraktflugið kemur í kjölfar samnings við þýskaflutningamiðlunarfyrirtækið DB Schenker. En vorið 2020 flutti Icelandair Cargo lækningavörur frá Kína til Evrópu á vegum fyrirtækisins.  

Aðrar áætlunarleiðir Icelandair Cargo verða ekki fyrir áhrifum af þessum nýju fraktflugum. Þannig verður áfram flogið til Boston í Bandaríkjunum og Liege í Belgíu.

Í tilkynningu frá félaginu segir að flug þangað hafi aukist töluvert eftir að Icelandair Cargo gerði samning við FedEx og TNT um flutninga á öllum þeirra vörum, til og frá Íslandi, í lok árs 2019.

Sóknarfæri á Norður-Atlantshafi

Flutningur á frakt í farþegakerfi Icelandair hefur jafnframt aukist samhliða uppbyggingu félagsins á farþegaleiðakerfinu eftir að Covid faraldurinn skall á. 

Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo
Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo Ljósmynd/ Aðsend

Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, segir að flugið til Ítalíu muni auka möguleika fyrir bæði innflytjendur og útflytjendur  á vöruflutningum til og frá Suður Evrópu.

Hann segist sjá sóknarfæri á Norður-Atlantshafi með fraktflutningi milli Evrópu og Ameríku.

Fyrstu níu mánuði ársins í ár jukust fraktflutningar Icelandair Cargo um 23 prósent, miðað við sama tíma í fyrra, að hans sögn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK