Horfur lyfjafyrirtækisins Pfizer halda áfram að vænkast en Covid-19 bóluefni þess og BioNTech selst í milljarðavís. Á sama tíma hefur markaðsleyfi bóluefnisins verið útvíkkað í Bandaríkjunum svo það nái einnig til barna á aldrinum 5-11 ára.
Pfizer gerir ráð fyrir því að fyrirtækið muni afhenda 2,3 milljarða skammta af bóluefninu á þessu ári. Það er um 200 milljónum fleiri en áætlanir gerðu ráð fyrir í júlí. Vegna þessa hefur tekjuhluti afkomuspár félagsins hækkað upp í 36 milljarða dala úr 15 milljörðum sem var áætlunin í janúar.
Forsvarsmenn félagsins segjast vissir um að umsvif félagsins í tengslum við Covid-19 muni vara hið minnsta út árið 2022 en ætlunin er að selja um 1,7 milljarða skammta á næsta ári.