Gagnaveita Reykjavíkur hefur nú formlega skipt um nafn og heitir fyrirtækið nú Ljósleiðarinn. Síðustu sjö ár hefur fyrirtækið komið fram undir þessu nafni, en á hluthafafundi um miðjan október var skrefið stigið til fulls og nafninu breytt.
Fyrirtækið rekur ljósleiðaranet og eru nú ríflega 100 þúsund heimili tengd ljósleiðaraneti fyrirtækisins. Fyrirtækið er alfarið í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, en eigendur hennar eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð.
Í tilkynningu vegna breytingarinnar er haft eftir Erling Frey Guðmundssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, að vörumerkið Ljósleiðarinn hafi verið tekið upp árið 2014, en það var um þær mundir sem ljósleiðaravæðing allra heimila í Reykjavík var að ljúka. „Nú nær okkar grunnnet miklu víðar og við erum enn að stækka það og þétta. Þetta sem upphaflega var heiti á okkar helstu þjónustu hefur smátt og smátt færst yfir á fyrirtækið sjálft og með þessari breytingu erum við að staðfesta þá þróun. Sum hafa kallað okkur Gagnaveituna, önnur GR, enn önnur Gagnaveitu Reykjavíkur en nú viljum við festa Ljósleiðaranafnið í sessi,“ er haft eftir honum.