Innlán bæði einstaklinga og fyrirtækja hafa aukist mikið í faraldrinum, eins og sjá má m.a. í nýbirtum uppgjörum stóru viðskiptabankanna þriggja.
Samtals nemur aukningin fjögur hundruð og sautján milljörðum króna. Innlán voru samtals 1.664 milljarðar króna um áramótin 2020 en eru nú í lok þriðja ársfjórðungs 2.081 milljarður. Heildaraukningin er 25%.
Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála Landsbankans, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að innlán í kerfinu hafi aukist mikið, og ekki hvað síst frá heimilum. „Margir hafa haldið góðum tekjum í faraldrinum, þótt auðvitað hafi stórir geirar eins og ferðaþjónustan orðið fyrir miklu áfalli. Á sama tíma hefur fólk ferðast minna en áður og sparnaður þess vegna aukist verulega. Við sjáum það líka í mikilli eftirspurn á verðbréfamarkaði og lágvaxtaumhverfið undanfarið hefur einnig hjálpað til,“ segir Hreiðar.
Hann segir að í svona ástandi byggist upp sparnaður heimila. Það sama eigi við á erlendum mörkuðum.
Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.