Álverð hefur lækkað um tæplega 500 bandaríkjadali á tonnið eftir að það fór í tæplega 3.200 dali í kauphöllinni með málma í London (LME) fyrir hálfum mánuði. Verðið er nú um 2.700 dalir og er eftir sem áður hátt í sögulegu samhengi. Það fór niður í 1.470 dali í maí í fyrra.
Á vef Shanghai Metal Markets (SMM), sem sérhæfir sig í umfjöllun um málmiðnaðinn, segir að meginskýringin á verðlækkuninni sé lækkandi verð á kolum en orka úr þeim knýr mörg álver í Kína.
Samkvæmt frétt á vef CNBC hafa kínversk stjórnvöld brugðist við litlum birgðum á kolum með því að heimila aukna framleiðslu og innflutning. Jókst innflutningur í september um 76% milli ára.
Orkuverð hefur líka lækkað í Evrópu. Til dæmis á norrænum orkumarkaði, NordPool, en verðið var að meðaltali 86 evrur í september en rúmar 57 evrur í október, og verð á raforku fyrir 2022 hefur lækkað um 34% á einum mánuði og er nú 31 evra á megavattstund.
Sérfræðingur á álmarkaði sem ViðskiptaMogginn ræddi við sagði að með lækkandi kolaverði væri aftur orðið hagkvæmt að viðhalda og jafnvel auka framleiðslu í álverum sem áður var talið að þyrfti að loka.
Það hafi óveruleg áhrif á álverðið að Bandaríkjastjórn skuli hafa samið um það á G20-fundinum í Róm að endurskoða 25% tolla á stál og 10% tolla á ál frá Evrópu. Eftir breytinguna munu tollar á innflutt ál frá Evrópu verða stighækkandi eftir því sem magnið eykst. baldura@mbl.is