Björgvin Sighvatsson, forstöðumaður lánamála ríkisins, segir að mörgu að hyggja þegar metið er hvort nú sé hagstæðara fyrir ríkissjóð að gefa út óverðtryggð eða verðtryggð skuldabréf.
Tilefnið er að verðbólguspár hafa verið endurskoðaðar til hækkunar og er ástæðan meðal annars innflutt verðbólga.
Birtist þetta meðal annars í því að ávöxtunarkrafa á óverðtryggða ríkisskuldabréfið RIKB 31 0124 hefur hækkað síðustu mánuði. Krafan náði hámarki í byrjun maí en lækkaði svo þar til í byrjun ágúst að hún tók að hækka á nýjan leik.
Ávöxtunarkrafan á umræddu bréfi er nú 4,07% en til samanburðar mælist nú 4,5% verðbólga á Íslandi.
Björgvin vísar svo til rannsóknar Kjartans Hanssonar, starfsmanns Seðlabanka Íslands, sem hafi rannsakað ávinninginn af þeirri stefnu stjórnvalda frá aldamótum að leggja „markvissa áherslu á óverðtryggða frekar en verðtryggða ríkisbréfaútgáfu í almennri fjármögnun ríkissjóðs“.
Tímabil rannsóknarinnar var frá 2003 til 2014 og var niðurstaða Kjartans að sambærilegar verðtryggðar útgáfur hefðu verið um 4% dýrari yfir allt tímabilið og kostað ríkissjóð 35 milljörðum króna meira. Þetta þýðir að sú ákvörðun að gefa frekar út óverðtryggð ríkisbréf í stað verðtryggðra ríkisbréfa sparaði ríkissjóði vaxtakostnað um sem nemur þessari fjárhæð.
Björgvin segir það hafa haft áhrif á þessa niðurstöðu að verðbólga hækkaði snögglega í kjölfar efnahagsáfallsins haustið 2008.
Seðlabankinn hafi ekki uppfært þessa rannsókn sem gerð var 2015.
Spurður hvort sagan sé að endurtaka sig nú, í kjölfar verðbólguskots eftir tímabil stöðugleika og sögulega lágra vaxta, segir Björgvin að óverðtryggðar skuldir séu hagkvæmari fyrir ríkissjóð ef verðbólga hækkar óvænt, líkt og raunin sé nú. Hins vegar muni markaðurinn fljótt laga sig að breyttum aðstæðum, ef verðbólga verður viðvarandi, og það endurspeglast í hækkandi ávöxtunarkröfu á óverðtryggð ríkisskuldabréf.
Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.