Icelandic Lava Show hefur undirritað samkomulag við EB Invest ehf. sem kemur inn í eigendahóp félagsins með fjármagn til að standa straum af opnun á nýrri sýningu á vegum félagsins. Þetta segir í sameiginlegri tilkynningu frá félögunum tveimur.
Fyrsti áfanginn í þessum framtíðaráformum er opnun sýningar í Reykjavík en hún kemur til viðbótar við sýninguna sem fyrir er í Vík í Mýrdal. Félagið hefur þegar tryggt sér húsnæði á Granda og vinna er komin af stað svo hægt verði að opna fyrir næsta sumar.
Birgir Örn Birgisson, sem fer fyrir EB Invest, segist hafa farið á sýningu Icelandic Lava Show síðastliðið vor og orðið „uppnuminn“ að henni lokinni.
„Í marga daga á eftir leitaði hugurinn aftur til hennar og ég sá ótal tækifæri í stöðunni. Þegar viðræður hófust við stofnendur og eigendur Icelandic Lava Show var ljóst að við deildum sömu framtíðarsýn og hópurinn er afar samstilltur. Við ætlum okkur stóra hluti í framtíðinni bæði hér heima og erlendis“, segir hann.
Júlíus Ingi Jónsson og Ragnhildur Ágústsdóttir, stofnendur Icelandic Lava Show, eru að eigin sögn afar spennt fyrir framhaldinu. Þau segja að sýningarnar í Vík og Reykjavík muni styðja vel við bakið á hvor annarri. Í Vík sé áherslan að miklu leyti á Kötlu, eina hættulegustu eldstöð heims, og hvernig það sé fyrir íbúa svæðisins að búa við þá stöðugu ógn.
„Í Reykjavík verður megináherslan auðvitað líka á rauðglóandi hraunið en þar munum við nálgast viðfangsefnið meira út frá Íslandi í heild sinni og hvaða hættur leynast hérna á höfuðborgarsvæðinu. Handritsvinnan er langt komin og við getum lofað magnaðri upplifun“, segir Ragnhildur.