Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV) hækkar áunnin lífeyrisréttindi í sameignardeild sjóðsins um 10% sem leiðir til samsvarandi hækkunar lífeyrisgreiðslna. Hækkunin miðast við síðastliðin áramót. Þetta segir í tilkynningu frá sjóðnum.
Hækkunin er tilkomin vegna góðrar ávöxtunar eigna undanfarin ár sem hefur styrkt tryggingafræðilega stöðu sjóðsins en meðalraunávöxtun eigna síðustu 10 ára er 6,7%, síðustu 20 ára 4,5% og síðustu 30 ára 5,4%.
Hækkun greiðslna elli-, örorku- og makalífeyris kemur til framkvæmda í nóvember. Samhliða mun sjóðurinn greiða í eingreiðslu uppsafnaða hækkun frá síðastliðnum áramótum. Eingreiðslan nær til um tuttugu og eitt þúsund sjóðfélaga og nemur rúmum 1,6 milljörðum króna eða að meðaltali um 76 þúsund krónum fyrir hvern lífeyrisþega, allt eftir fjárhæð áunninna lífeyrisréttinda hvers og eins.
Sjóðfélagar sem fá einnig greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins eru hvattir til þess að huga að því hvort tilefni sé til að uppfæra tekjuáætlun hjá stofnuninni.
Sjóðfélagar geta séð áhrif réttindahækkunarinnar á sjóðfélagavef sínum á mitt.live.is.