Mikill aðflutningur til landsins eykur spennu á leigumarkaði

Þorsteinn Arnalds, framkvæmdastjóri hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), segir í samtali við Morgunblaðið að merki séu um að aukinn aðflutningur fólks til landsins sé farinn að hafa áhrif á leigumarkaðinn til hækkunar.

„Leigumarkaðskönnun okkar bendir til að farið sé að þrengja að leigjendum og það eru miklar líkur á því að aðflutningurinn á fyrri hluta ársins hafi áhrif í því efni. Jafnframt að aukinn aðflutningur á þriðja ársfjórðungi muni hafa meiri áhrif þegar fram í sækir,“ segir Þorsteinn í tilefni af nýjum tölum Hagstofunnar um búferlaflutninga.

Máli sínu til stuðnings vísar Þorsteinn í niðurstöður væntanlegrar leigumarkaðskönnunar HMS.

Að óbreyttu muni þessi þróun leiða til þess að leiguverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu muni hækka.

Þorsteinn Arnalds.
Þorsteinn Arnalds. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Tilfærsla yfir í eigið húsnæði

Meðal niðurstaðna er að yngsti hópurinn í könnuninni, 18-24 ára, hefur „fært sig að miklu leyti aftur í foreldrahús“ eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst, og að aldurshópurinn 25-34 ára hafi verið að „færa sig af leigumarkaði og að einhverju leyti úr foreldrahúsum og yfir í eigið húsnæði“. Ljóst sé að fjölmörg heimili hafi yfirgefið leigumarkaðinn sl. ár og keypt eigið húsnæði, ekki síst tekju- og eignameiri heimili.

Þátttakendur í könnuninni voru spurðir hvort þeir teldu sig búa við húsnæðisöryggi. Hlutfall þeirra sem eru mjög eða frekar sammála var 21,2% árið 2019, 16,1% árið 2020 og 18,9% í ár og hækkar hlutfallið því á nýjan leik. Öryggið er minnst hjá 45-54 ára leigjendum. Að mati skýrsluhöfunda eru meginástæður þess að leigjendur telja sig ekki búa við húsnæðisöryggi einkum þær að þeir hafa tímabundinn leigusamning, telja að leiguverð sé of hátt og að lítið framboð sé á íbúðarhúsnæði.

Um 2.200 fleiri erlendir ríkisborgarar fluttu til landsins á þriðja ársfjórðungi en fluttu þá frá landinu. Hafa því samanlagt 3.160 fleiri erlendir ríkisborgarar flutt til landsins en frá því á þessu ári, líkt og lesa má úr grafinu. Flutningsjöfnuðurinn var einnig jákvæður hjá íslenskum ríkisborgurum en 340 fleiri fluttu til landsins á þriðja fjórðungi en frá því og alls 860 frá áramótum. Er þetta metfjöldi aðfluttra íslenskra ríkisborgara umfram brottflutta á öldinni en flest árin hefur þessi flutningsjöfnuður verið neikvæður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK