Stýrivextir óbreyttir og verðbólga í kortunum

Englandsbanki heldur stýrivöxtum óbreyttum.
Englandsbanki heldur stýrivöxtum óbreyttum. Ljósmynd/EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA

Englandsbanki hefur tilkynnt að hann hyggist halda stýrivöxtum óbreyttum, 0,1%, um sinn. Á sama tíma varar hann við því að verðbólga verði um 5% á öðrum ársfjórðungi næsta árs.

Peningastefnunefnd bankans hefur með ákvörðun sinni komið markaðsaðilum í opna skjöldu en flestir gerðu ráð fyrir að stýrivextir yrðu færðir úr 0,1% í 0,25%. Hins vegar var ekki samstaða í nefndinni og tveir nefndarmenn lögðu til að vextirnir yrðu hækkaðir í 0,25%. Þar voru á ferðinni varaseðlabankastjórinn Sir Dave Ramsden og Michael Saunders.

Sterlingspundið gaf eftir á markaði í kjölfar fréttanna frá Englandsbanka. Nemur lækkunin gagnvart íslensku krónunni 0,71%.

Aukin bólga í spilunum

Bankinn metur sem svo að verðbólga muni ná 5% í apríl síðastliðnum. Hún mældist 3,1% í september. Verðbólgumarkmið bankans er hins vegar 2% og því stefnir í að verðbólgan verði meira en tvöfalt viðmiðið áður en hún tekur að hjaðna á ný.

Bendir bankinn á að það sé ekki síst fyrir hækkandi orkuverð sem gera megi ráð fyrir að neysluverð muni hækka. Það eigi einnig við um aðra nauðsynjavöru og matvæli.

Englandsbanki ákvað einnig að viðhalda óbreyttri magnbundinni íhlutun á markaði. Þar voru skoðanir hins vegar skiptari og féllu atkvæði 6-3, óbreyttu ástandi í vil. Fyrrnefndur Saunders í félagi við tvo aðra nefndarmenn vildu draga úr skuldabréfakaupum bankans. Tillagan var hins vegar ekki stórkarlaleg í neinu samhengi. Lögðu þau til að kaupin yrðu færð úr 875 milljörðum punda í 855 milljarða.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK