Meðalfjöldi heildarvinnustunda hefur dregist saman um rúmlega eina og hálfa klukkustund á viku á milli ára, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands fyrir þriðja ársfjórðung ársins 2021.
„Á þriðja ársfjórðungi 2021 var meðalfjöldi heildarvinnustunda á viku 37,8 klukkustundir hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni, 34,0 stundir hjá konum og 40,7 stundir hjá körlum. Til samanburðar var meðalfjöldi vinnustunda 39,4 klukkustundir á þriðja ársfjórðungi 2020, 35,6 stundir hjá konum og 42,3 stundir hjá körlum,“ segir á vef Hagstofunnar.
„Þegar venjulegar vinnustundir eru skoðaðar vann fólk að jafnaði 38,8 klukkustundir í venjulegri vinnuviku samanborið við 39,1 stund á þriðja ársfjórðungi 2020. Venjulegar vinnustundir eru óháðar því hvort starfandi fólk var við vinnu í viðmiðunarviku rannsóknarinnar eða ekki.“
Nokkur batamerki eru á íslenskum vinnumarkaði, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókninni. Hlutfall starfandi hefur hækkað og atvinnuleysi minnkað.
„Hlutfall mannfjölda 16 til 74 ára á vinnumarkaði, eða atvinnuþátttaka, mældist 79,8% á þriðja ársfjórðungi 2021 sem er aukning um 0,8 prósentustig frá sama ársfjórðungi 2020. Fjöldi starfandi á þriðja ársfjórðungi 2021 var 203.100 manns og var hlutfall starfandi af mannfjölda 76,6%. Hlutfall starfandi kvenna var 73,3% og starfandi karla 79,7%. Á höfuðborgarsvæðinu var hlutfall starfandi fólks 77,9% og utan höfuðborgarsvæðis 74,3%,“ segir á vef Hagstofunnar.
„Frá þriðja ársfjórðungi 2020 til þriðja ársfjórðungs 2021 fjölgaði starfandi fólki um 8.300 og jókst hlutfall þess af mannfjölda um 2,2 prósentustig. Starfandi konum fjölgaði um 4.800 og körlum um 3.600.“
194.800 voru starfandi á þriðja ársfjórðungi síðasta árs og hlutfall af mannfjölda 74,4%. Hlutfall starfandi kvenna var þá 70,7% og starfandi karla 77,8%. Þá var hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu 75,1% og 73,2% utan höfuðborgarsvæðisins.
Þá dróst atvinnuleysi saman á ársfjórðunginum en 8.500 einstaklingar töldust vera atvinnulausir eða um 4,0% af heildarvinnuafli 16-74 ára. Atvinnuleysi kvenna var 4,6% og karla 3,5%.
„Á sama ársfjórðungi voru um 8.380 störf laus á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt starfaskráningu Hagstofunnar eða um 3,6% starfa samanber áður útgefnar tölur. Til samanburðar voru um 12.000 einstaklingar atvinnulausir á þriðja ársfjórðungi 2020 og var hlutfall þeirra af vinnuafli þá 5,8%.“