Eykur hagkvæmni álversins

Gunnar Guðlaugsson stýrir álverum Century um heim allan.
Gunnar Guðlaugsson stýrir álverum Century um heim allan. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnar Guðlaugsson, yfirmaður álvera Century Aluminum um heim allan, segir fyrirhugaðan steypuskála auka hagkvæmni álvers Norðuráls á Grundartanga og hafa jákvæð umhverfisáhrif í för með sér. Uppbygging skálans hefst síðar í þessum mánuði og er áformað að taka hann í notkun í byrjun árs 2024.

„Við teljum þetta áhugaverða og góða framkvæmd og kannski sérstaklega í ljósi umræðunnar um loftslagsmál. Því þarna erum við að taka viðbótarskref í framleiðslunni heima. Við vinnum álið fljótandi og með því þarf ekki að bræða álið aftur í Evrópu og það sparar orku. Sú orka í Evrópu yrði að stærstum hluta framleidd með jarðefnaeldsneyti en reiknað hefur verið út að þessu fylgi 40% orkusparnaður. Þannig að þetta er grænt verkefni sem uppfyllir skilyrði Arion banka um græna fjármögnun,“ segir Gunnar.

Graf/mbl.is

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í fyrradag hafa Norðurál og Arion banki undirritað samning um fjármögnun framkvæmdarinnar.

Fara meðal annars í íhluti í bíla

Að sögn Gunnars verða álstangir steyptar í steypuskálanum en þær séu notaðar við framleiðslu á ýmsum vörum. Meðal annars verði stangirnar seldar til framleiðenda á íhlutum fyrir bílaiðnaðinn í Evrópu. Stangirnar séu í raun sívalningar úr áli sem mótaðir eru með þrýstimótun.

Þá muni steypuskálinn gera álverinu kleift að framleiða meira af melmi, álblöndum sem eru sniðnar að óskum viðskiptavina, en sú framleiðsla hófst hjá Norðuráli árið 2014.

„Þá blöndum við aðallega kísil út í álið til að styrkja og breyta eiginleikum álsins. Þetta ál, eða melmi, er síðan til dæmis notað til að framleiða álfelgur og ýmsa íhluti í bíla. Þegar steypuskálinn er kominn í notkun verðum við með 80-100% af okkar framleiðslu í virðisaukandi framleiðslu, sem er mjög gott enda er alltaf verið að kalla eftir því hér heima að auka verðmæti framleiðslunnar hér heima,“ segir Gunnar og bendir á annars konar ávinning.

„Uppbygging steypuskálans breytir miklu fyrir Norðurál á Grundartanga sem tekur næsta skref í framleiðslukeðjunni. Það gerir álverið samkeppnishæfara og dreifir áhættunni enda helst verðmyndun á álsívalningum ekki endilega í hendur við verðmyndun á áli.“

Gunnar hóf störf hjá Grundartanga árið 2008 og varð framkvæmdastjóri álversins 2009. Árið 2019 varð hann forstjóri Norðuráls og snemma á þessu ári varð hann yfirmaður allra álvera Century Aluminum fyrirtækisins um heim allan. Þeim umskiptum hafa fylgt tíð ferðalög og hefur Gunnar verið erlendis stærstan hluta tímabilsins síðan hann tók við stöðunni í febrúar, þar af lengstum í Kentucky, en Century Aluminum rekur þar tvö álver.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 6. nóvember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK