Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði um 3,5% í viðskiptum í Kauphöllinni í dag, en hækkunin kemur í kjölfar frétta um að Bandaríkin hafi opnað landamæri sín fyrir bólusettum ferðamönnum, eftir 20 mánaða ferðabann vegna faraldursins.
Bréf flestra annarra félaga í Kauphöllinni lækkuðu hins vegar, en mest var lækkunin hjá Eik fasteignafélagi, en þar nam lækkunin 2,4%.
Hækkun Icelandair kom ekki strax fram við opnun markaða, en um hádegi og svo seinni partinn tóku bréfin að hækka. Við opnun markaða var gengi bréfanna 1,7 krónur á hlut, en við lok viðskipta stóðu þau í 1,76 krónum á hlut. Fór verð bréfanna hæst í 1,79 krónur, en það jafngildir 5,2% hækkun.
Leiðarkerfi Icelandair byggir að miklu leyti á að tengja saman Evrópu og Norður-Ameríku og ætti aflétting ferðabannsins því að opna möguleika fyrir stóran markhóp félagsins að ferðast þangað eftir tæplega tveggja ára tímabil þar sem ferðalög til Bandaríkjanna voru ómöguleg.