Hagnaður Eimskips ofar væntingum

Eimskip.
Eimskip. Ljósmynd/Eimskip

Veruleg aukning var í hagnaði flutningafyrirtækisins Eimskips á þriðja ársfjórðungi 2021 þar sem aðlagaður hagnaður nam 36,9 milljónum evra, jafnvirði 5,5 milljarða íslenskra króna samanborið við 3,7 milljónir evra, jafnvirði rúmlega hálfs milljarðs íslenskra króna fyrir sama tímabil 2020. Þetta kemur fram í uppgjöri fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi 2021.

Afkoma fyrirtækisins er þannig sögð yfir væntingum fyrir umrætt tímabil en uppfærð aðlöguð afkomuspá fyrir allt árið 2021 er á bilinu 102-110 milljónir evra en var áður á bilinu 90-100 milljónir evra.

Í uppgjörinu segir að tekjur fyrirtækisins hafi numið 236,6 milljónum evrum og hækkað um 66,2 milljónir evra eða 39% samanborið við þriðja ársfjórðung 2020. Umtalsverðar verðhækkanir frá flutningsbirgjum hafi haft í för með sér aukningu á sölutekjum.

Þá nam kostnaður fyrirtækisins 199,8 milljónum evrum sem er hækkun um 34% og skýrist að mestu af verulegri aukningu í kostnaði vegna kaupa á þjónustu flutningsbirgja fyrir hönd viðskiptavina.

Launakostnaður hækkaði um 17%

Launakostnaður hafi hækkað um 4,3 milljónir evra eða um 17%. Þar af nema gjaldeyrisáhrif 1,7 milljónum evra  og 2,6 milljónir evra eru m.a. vegna aukinna umsvifa og almennra launahækkana.

Verulegur vöxtur hafi verið í EBITDA eða um 15,4 milljónir evra og nam EBITDA fjórðungsins 36,8 milljónum evra samanborið við 21,4 milljónir evra fyrir sama tímabil ársins 2020.  EBITDA hlutfall var 15,5% samanborið við 12,6% fyrir sama tímabil síðasta árs. EBIT nam 23,8 milljónum evra samanborið við 10,4 milljónir evra sem er hækkun um 13,4 milljónir evra fyrir sama tímabil ársins 2020.

Fjárfestingar á tímabilinu námu 9,4 milljónum evra samanborið við 32,8 milljónir evra fyrir sama tímabil síðasta árs, en þar af voru fjárfestingar í nýjum skipum á fyrstu níu mánuðum síðasta árs 18,5 milljónir evra.

Eiginfjárhlutfall nam 41,3% og aðlagað skuldsetningarhlutfall var 2,18 sem bæði eru í samræmi við útgefin markmið.

Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri Eimskips.
Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri Eimskips. Kristinn Magnússon

Forstjórinn ánægður með rekstrarárangurinn

Ég er mjög ánægður með áframhaldandi sterkan rekstrarárangur á þriðja ársfjórðungi. Niðurstöðurnar einkennast af góðu framlagi frá bæði áætlunarsiglingum og flutningsmiðlun sem eru helstu drifkraftar bættrar afkomu. Þær óvenjulegu markaðsaðstæður sem hafa verið á alþjóðaflutningamörkuðum halda áfram að vera krefjandi og sem fyrr hafa þessar aðstæður bæði áhrif á tekjur og kostnað. Við teljum okkur þó vera farin að sjá fyrstu merki um stöðugleika í alþjóðlegum verðvísitölum.

Í krefjandi alþjóðlegu umhverfi hefur okkur tekist að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu í áætlunarsiglingum og flutningsmiðlun þar sem staða okkar sem leiðandi flutningafyrirtæki á Norður-Atlantshafi með öflugt alþjóðlegt skrifstofunet kemur sér vel. Við byggjum á sterkum viðskiptasamböndum og sérfræðiþekkingu starfsmanna okkar og erum vel staðsett á markaðnum með áherslu okkar á flutning á frystum og kældum vörum. Þrátt fyrir krefjandi aðstæður á alþjóðlegum flutningamörkuðum þá er útlitið fyrir fjórða ársfjórðung gott og af þeim sökum höfum við hækkað afkomuspá fyrir árið í heild,“ er meðal annars haft eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni forstjóra Eimskips, í fréttatilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK